Duga 0,9 bílastæði fyrir hverja íbúð í nýjum fjölbýlishúsum?

Bjarg hefur reist íbúðahús með 99 íbúðum við Hraunbæ.
Bjarg hefur reist íbúðahús með 99 íbúðum við Hraunbæ. mbl.is/Sigtryggur Sigtryggsson

Er í lagi að bílastæði við ný fjölbýlishús séu færri en fjöldi íbúða í húsinu?

Eiga nútímafjölskyldur einn bíl, tvo bíla eða engan? Um þetta var deilt í borgarkerfinu þegar greidd voru atkvæði um deiliskipulagsbreytingu fyrir lóðina Hraunbæ 133. Svo fór að lokum að breytingin var samþykkt og því verða 0,9 stæði pr. íbúð í húsum sem þar verða reist.

Eins og fram kom í frétt í Morgunblaðinu 27. maí var á fundi byggingfulltrúa Reykjavíkur nýlega tekin fyrir umsókn Bjargs íbúðafélags um leyfi til þess að byggja 4-5 hæða fjölbýlishús með 39 íbúðum á lóðinni Hraunbær 133. Borgin úthlutaði Bjargi lóðinni í fyrra. Stærð hins nýja fjölbýlishúss verður 3.240 fermetrar. Bjarg hyggst reisa tvö önnur hús á lóðinni og því verða á henni alls 64 íbúðir og heildarbyggingamagn verður 8.436 fermetrar.

Ósk um nýtt deiliskipulag fyrir lóðina hefur verið til afgreiðslu í borgarkerfinu undanfarna mánuði. Það hefur verið afgreitt í ágreiningi og kom til fullnaðarafgreiðslu í borgarstjórn. Þar var deiliskipulagið samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins. Borgarfulltrúi Flokks fólksins sat hjá.

Í hinu nýsamþykkta deiliskipulagi var íbúðum fjölgað um sex, úr 58 íbúðum í 64 íbúðir og „bílastæðakrafa er lækkuð lítillega úr einu stæði í 0,9 stæði pr. íbúð,“ eins og segir orðrétt.

Fram kemur í erindi umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur að deiliskipulagsbreytingin taki aðeins til reits A (Hraunbær 133), innan deiliskipulags fyrir Bæjarháls – Hraunbær. Bjarg íbúðafélag hefur nú þegar byggt íbúðarhús á reit C (Hraunbær 153). „Skilmálar þess reits voru aðlagaðir að óskum Bjargs á sínum tíma til að mögulegt væri að byggja húsin innan þess kostnaðarramma sem reglugerð HMS (Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar) setur félaginu. Nú óskar Bjarg eftir sambærilegum skilmálabreytingum á reit A,“ segir í erindinu.

„Staðsetning lóðarinnar í næsta nágrenni við góðar almenningssamgöngur í hjarta Hraunbæjar gefur tilefni til að lækka bílastæðakröfu frá viðmiði reglna um fjölda bíla- og hjólastæða,“ segir verkefnastjóri skipulagsfulltrúa Reykjavíkur og leggur til að deiliskipulagstillagan verði samþykkt óbreytt. Á þetta féllst meirihluti borgarfulltrúa.

Nýbygging í Hraunbænum.
Nýbygging í Hraunbænum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert