Leggur til hertar aðgerðir á landamærunum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er með í smíðum minnisblað til heilbrigðisráðherra um hertar aðgerðir á landamærum. Hann ætlar að skila minnisblaðinu fljótlega. Til skoðunar er að krefja alla ferðamenn, jafnt bólusetta sem óbólusetta, um neikvæðar niðurstöður úr PCR-prófi. Þá er einnig mögulegt að Íslendingar verði skimaðir við komuna til landsins.

„Það er eiginlega sama hvað við gerum hér, ef við fáum alltaf jafnt flæði af veirunni inn náum við aldrei almennilegum tökum á þessu. Það höfum við sýnt í gegnum faraldurinn að frumskilyrði til þess að ná tökum á faraldrinum hér innanlands er að við höfum góð tök á landamærunum,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

Spurður hvort meðal annars sé til skoðunar að krefja alla ferðamenn, jafnt bólusetta sem óbólusetta, um neikvæðar niðurstöður úr PCR-prófi við komuna til landsins, jánkar hann því.

„Og reyna að fá sýni hjá íslendingum, fólki sem er með tengslanet hér. Við sjáum að smitin sem eru að dreifast hér innanlands eru aðallega frá Íslendingum sem koma frá útlöndum,“ segir Þórólfur.

Tvö smit sem er ekki alveg hægt að rekja

Sjö kórónuveirusmit greindust innanlands í gær, öll hjá bólusettum einstaklingum. Fjögur smitanna greindust utan sóttkvíar.

Smitin sem hafa greinst undanfarið eru flest af Delta-afbrigði veirunnar sem talið er bráðsmitandi. 

„Það er hægt að tengja þessi smit fyrri smitum meira og minna. Það eru kannski tveir þarna sem hefur ekki verið alveg hægt að rekja. Svo eigum við eftir að fá niðurstöður úr raðgreiningu sem segir okkur meira um það hvernig smitin tengjast,“ segir Þórólfur. 

„Þetta eru nokkrar mismunandi tegundir sem hafa allar komið inn í gegnum landamærin, þetta eru veirur sem hafa ekki greinst hér áður.“

Bólusetningin ekki til einskis

Aðspurður segir Þórólfur að allur gangur sé á því hversu langt hafi verið liðið frá bólusetningu hinna smituðu þegar þeir smituðust. 

„Flestir af þeim sem hafa greinst hafa verið fulbólusettir og við teljum einstaklinga fullbólusetta þegar tvær vikur hafa liðið frá seinni sprautunni.“ 

Þórólfur segir vonlaust að meta það hvort hinir smituðu hefðu smitað fleiri út frá sér ef þeir væru óbólusettir. Hann bendir á í framhaldi að bólusetningin veiti góða vernd þó hún veiti ekki fulla vernd.

„Virknin er eitthvað minni gegn Delta-afbrigðinu en öðrum afbrigðum. Það hefur sýnt sig að hún sé kannski 60 til 70% virk í því að koma í veg fyrir allar tegundir af smitum en yfir 90% virk í að koma í veg fyrir alvarleg veikindi. Eftir sem áður er bólusetningin klárlega að gera sitt. Hún er að vernda mjög marga þó hún verndir ekki alla. Það má ekki líta þannig á það að bólusetningin hafi verið til einskis. Ef við hefðum ekki bólusett svona vel værum við örugglega komin með mjög strangar og harðar aðgerðir hér innanlands eins og við gripum til í mars síðastliðnum,“ segir Þórólfur.

Ekki útilokað að veiran nái að dreifast

Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins varaði í morgun við því að smitum gæti farið að fjölga verulega á næstunni og vikulegur smitfjöldi gæti fimmfaldast fyrir 1. ágúst, sérðu fyrir þér að slíkt gæti líka gerst hér?

„Já en við þurfum að líta á það að flest Evrópulönd eru ekki búin að bólusetja eins mikið og við. Ég held að við ættum að hafa aðeins meiri varnir hér. Eftir sem áður getur það gerst að við fáum hér útbreiðslu, það er ekki hægt að útiloka það. Þess vegna höfum við varann á.“

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert