„Þjóð þarf ekki óvini með svona leiðtoga“

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ríkisstjórnin er staðráðin í því að draga á langinn þennan faraldur,“ segir Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og vísar til blaðamannafundar ríkisstjórnarinnar sem haldinn var nú síðdegis.

Þar var ákveðið að framlengja núgildandi samkomutakmarkanir og aðrar aðgerðir sem í gildi eru í von um að hamla útbreiðslu kórónuveirunnar.

„Grímuskylda og 200 manna (200!) samkomutakmarkanir í skólum! Af hverju lætur þetta fólk svona?“ spyr Sigríður á Twitter.

Blaðamannafundir séu til að upplýsa mál

Heldur hún áfram:

„Blaðamannafundir ríkisstjórnarinnar í hnotskurn: „Nú verður farið í að greina/skoða/stofna starfshóp/úfæra þvinganirnar.“ Hví er ekki búið að því? Blaðamannafundir eru til að upplýsa mál, ekki til undirbúnings á öðrum fundi.“

Vísar hún einnig til frétta af auknum ótta fólks hér á landi við kórónuveirusmit.

Kynda undir ótta og kvíða landsmanna

„Ráðherrarnir hafa greinilega ekkert til málanna að leggja annað en að kynda undir ótta og kvíða landsmanna sem fréttir voru fluttar af í dag. Þjóð þarf ekki óvini með svona leiðtoga.“

Ráðherrann fyrrverandi hefur áður gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir aðgerðir sínar í faraldrinum, og þá sérstaklega ráðherra Sjálfstæðisflokksins, fyrir „sorglega frammistöðu í þessu leikriti“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert