„Það er engin skylda að fara í 200 manna hóp“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að hann geti ekki mælt með hertum sóttvarnaaðgerðum innanlands sem byggist á neyðarástandi á Landspítala nema spítalinn gefi það ótvírætt til kynna að þar sé neyðarástand. Hann segist tilbúinn að leggja til aðgerðir ef þurfa þykir. 

Þórólfur fundaði í gær ásamt Ölmu Möller landlækni, Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítala, og Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um stöðuna á spítalanum. „Við erum í stöðugum samræðum um ástandið,“ segir Þórólfur um fundinn. 

Augljóst að staðan er bæði þröng og þung

Er staðan þar orðin það slæm að grípa þurfi til hertra sóttvarnaaðgerða?

„Ég er tilbúinn, en eins og ég hef sagt er mjög erfitt fyrir mig að koma með tillögur um hertar aðgerðir sem byggjast á neyðarstöðu á Landspítala nema spítalinn segi það sjálfur eða gefi það í skyn að þar sé neyðarstig.“

Þannig að spítalinn hefur ekki tjáð þér að neyðarástand sé yfirvofandi?

„Auðvitað er augljóst út frá viðræðum við forsvarsmenn spítalans og aðra sem eru á spítalanum að staðan er mjög þröng og þung en það er verið að gera ýmislegt til að auka svigrúm spítalans. Það er spítalinn sjálfur sem þarf að segja til um hvort það dugi til eða ekki,“ segir Þórólfur. 

Smit utan sóttkvíar keyra bylgjuna áfram

Daglega greinast tugir kórónuveirusmita utan sóttkvíar. Þórólfur jánkar því aðspurður að þau haldi bylgjunni gangandi. Þá séu margir með mjög lítil einkenni. 

„Það er hægt að þakka eða kenna bólusetningunni um það. Hún gerir það að verkum að fólk fær vægari einkenni og það leiðir af sér að fólk fer kannski síður í sýnatökur. Það er ánægjulegt að fólk sé með lítil einkenni en útbreiðslan er nægilega mikil til þess að það séu nægilega margir með nógu alvarleg einkenni til þess að leggjast inn á sjúkrahús til þess að valda þessum þrengingum og vandamálum inni á spítalanum. Það er það sem málið snýst um.“

Er ómögulegt að fækka smitum utan sóttkvíar?

„Það er ekki hægt að fækka þeim öðru vísi en að beita þeim leiðbeiningum sem við höfum verið með í gangi. Við erum með rakningu, beinum þeim tilmælum til fólks að fara í sýnatöku ef það er með einkenni, gæta vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum, fara ekki í fjölmenni. Það er engin skylda að fara í 200 manna hóp þó að reglugerðin segi til um að það sé heimilt. Við getum ekki gert annað en að beita þessum tilmælum eins og staðan er núna. Við vonumst til þess að það muni skila sér í fækkun tilfella utan sóttkvíar.“

Hafið þið orðið vör við að fólk sé að fara á mannmarga viðburði?

„Ég get ekki svarað því, fólk er bara víðs vegar og þetta er mjög breytilegt.“

Óbólusettir taki áhættu

Um 90% Íslendinga sem hafa náð 16 ára aldri hafa fengið bólusetningu gegn Covid-19. Það þýðir að um 10% hafa ekki fengið bólusetningu, eða um 36.000 manns. 

„Ef helmingur þeirra sem eru bólusettir getur smitast og smitað aðra og útbreiðslan er töluverð þá er mjög auðvelt fyrir útbreiðsluna að verða þannig að óbólusettir smitist. Ef við skoðum áhættuna á því að smitast og leggjast inn á spítala og veikjast alvarlega þá er áhættan miklu, miklu meiri hjá óbólusettum. Áhættan er mun meiri hjá óbólusettum en bólusettum,“ segir Þórólfur sem hvetur fólk til þess að fara í bólusetningu. 

Opið verður fyrir bólusetningu óbólusettra í Laugardalshöll í næstu viku, alla virku dagana nema föstudag, frá klukkan 10 til 15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert