Ólíklegt að aðgerðir skili árangri

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hvatti stjórnvöld í minnisblaði sínu til að grípa til þekktra aðgerða vegna fjölgunar Covid-smita og lagði til hliðsjónar minnisblöð frá 22. júlí, 24. ágúst og 12. september og 18. október. Ólíklegt er að nýkynntar samkomutakmarkanir muni skila miklum árangri. 

Þetta sést í minnisblaði Þórólfs til heilbrigðisráðherra vegna fjölgunar Covid-smita.

Samkvæmt reglugerðinni, sem tekur gildi í næstu viku, mega 500 koma saman í stað 2.000 áður en með notkun hraðprófa verður þó heim­ilt að halda viðburði fyr­ir allt að 1.500 manns.

Grímu­skylda, sem tekur gildi á miðnætti, verður tek­in upp á sitj­andi viðburðum og í versl­un­um og af­greiðslu­tími skemmti­staða stytt­ur um tvo klukku­tíma. Skal þeim lokað klukk­an ell­efu og síðasti maður kom­inn út klukk­an tólf. Einnig verður skerpt á eins metra regl­unni.

Um svipaðar takmarkanir er að ræða og voru í minnisblaði Þórólfs 12. september og tóku gildi 15. september. Þá máttu einnig 500 manns koma saman og 1.500 manns með notkun hraðprófa. Enn fremur var skemmtistöðum gert að loka á miðnætti, líkt og nú verður raunin.

Þórólfur bendir á að á gildistíma reglugerðarinnar, sem tók gildi 15. september, hafi daglegur fjöldi smita aukist úr 20 í rúmlega 60. 

Hins vegar taldi Þórólfur meiri líkur á því að takmarkanir líkar þeim sem tóku gildi í lok ágúst myndu skila tilætluðum árangri. Þá máttu 200 koma saman og 500 með notkun hraðprófa.

Þórólfur bendir enn fremur á að frá því að yfirstandandi bylgja faraldursins hófst um miðjan júlí hafi tæplega 7.300 greinst með Covid-19, um 160 lagst inn á sjúkrahús (2,2%), 33 lagst inn á gjörgæsludeild, 17 þurft á aðstoð öndunarvélar að halda, einn þurft að fara í hjarta- og lungnavél og fjórir látist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert