500 mega koma saman og afgreiðslutími styttur

Samkomutakmarkanir munu taka gildi á miðvikudag í næstu viku.
Samkomutakmarkanir munu taka gildi á miðvikudag í næstu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að samkomutakmarkanir verði hertar, þannig að 500 manns megi koma saman í stað 2.000 áður. Með notkun hraðprófa verður þó heimilt að halda viðburði fyrir allt að 1.500 manns.

Grímuskylda verður tekin upp á sitjandi viðburðum og í verslunum og afgreiðslutími skemmtistaða styttur um tvo klukkutíma. Skal þeim lokað klukkan ellefu og síðasti maður kominn út klukkan tólf. Einnig verður skerpt á eins metra reglunni.

Hertar takmarkanir taka gildi á miðvikudag í næstu viku og gilda í fjórar vikur. Grímuskylda tekur hins vegar gildi á miðnætti.

Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. 

Hún sagði deildar meiningar hafa verið um aðgerðirnar innan ríkisstjórnarinnar en ábyrgðin væri hennar. Minnisblaðið frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni hefði verið öðruvísi að þessu sinni þar sem hann hefði boðið upp á þrjár mismunandi leiðir og sett í hennar hendur að meta hvað væri æskilegast. Óbreyttar aðgerðir, miklar herðingar og það að fara milliveg. Það síðastnefnda hefði verið hennar niðurstaða.

Svandís sagði það vissulega óþægilegt hvað kúrfan væri brött en samfélagið væri hins vegar orðið vel varið og bólusettir veiktust minna en óbólusettir. Samhliða aðgerðunum yrði líka farið í öfluga herferð í örvunarbólusetningum, en allir 16 ára og eldri geta nú fengið örvunarskammt, sex mánuðum eftir grunnbólusetningu.

167 kórónuveirusmit greindust innanlands í gær og er það metfjöldi smita síðan faraldurinn hófst. 122 voru utan sóttkvíar við greiningu.

Ítarlegri upplýsingar um aðgerðirnar má finna á vef Stjórnarráðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert