Segja sendiráðið skulda eina og hálfa milljón

Íslenska sendiráðið í London.
Íslenska sendiráðið í London. mbl.is/Skapti

Samgöngustofnun Lundúnaborgar, TfL, hefur birt lista yfir þau sendiráð sem hafa trassað að greiða svonefnt „tafagjald“ (e. Congestion Charge) fyrir bílaumferð í miðborg Lundúna.

Listinn miðar við lok ársins 2023, og er sendiráð Íslands þar sagt skulda stofnuninni 8.520 sterlingspund, eða sem nemur 1.497.616 íslenskum krónum.

Á listanum frá TfL (pdf-skjal) kemur fram að stofnunin og bresk stjórnvöld líti á gjaldið sem þjónustugjald en ekki skatt, og því megi leggja það á sendiráð erlendra ríkja samkvæmt Vínarsáttmálanum frá 1961. Gjaldið nemur 15 pundum á hvern bíl sem fer innfyrir ákvæðið svæði í miðborg Lundúna.

Skilti sem þessi marka svæðið sem tafagjaldið taka til.
Skilti sem þessi marka svæðið sem tafagjaldið taka til. AFP/JOHN D MCHUGH

Mótmæla gjaldinu

Mörg ríki hafa hins vegar ákveðið að greiða ekki gjaldið í mótmælaskyni, og þar sem einungis bresk stjórnvöld en ekki Lundúnaborg geta kært sendiráðin, hefur ekki verið látið reyna á fyrir dómstólum hvort tafagjaldið telst vera þjónustugjald eða skattur.

Þannig skuldar sendiráð Bandaríkjanna samkvæmt stofnuninni 14.645.025 sterlingspund í gjöld og sektir, en sú tala jafngildir um tveimur og hálfum milljarði íslenskra króna. Sendiráð Japana skuldar rúmlega 10 milljón sterlingspund, og sendiráð Indlands um 8,5 milljónir punda. Sendiráð Kínverja er sagt skulda tæpar átta milljónir punda í tafagjald og það rússneska tæpar sex milljónir.

Ætla að halda gjaldinu til streitu

Þegar horft er til frændþjóða okkar má sjá að Finnar eru einungis sagðir skulda 120 pund, eða um 21.000 íslenskar krónur, og Norðmenn 160 pund eða um 28.000 íslenskar krónur. Eru báðar þjóðir meðal þeirra sem eru sagðar skulda Lundúnaborg hvað minnst.

Danska sendiráðið, sem er í sömu byggingu og það íslenska, er hins vegar sagt skulda 405.995 sterlingspund, eða sem nemur um 71 milljón íslenskra króna. Þess má geta að sendiráðið, sem er við Hans Street í Kensington, er ekki innan þess svæðis sem tafagjaldið tekur nú til, en var það á árunum 2007-2011.

Athygli vekur, að í gögnum sem sýndu stöðuna haustið 2023 var meint skuld íslenska sendiráðsins einungis metin á um 1.460 pund, eða rétt rúmlega 250.000 íslenskar krónur.

Lundúnaborg hefur heitið því að gjaldinu verði haldið til streitu, og eru borgaryfirvöld að reyna að fá málið tekið upp hjá Alþjóðadómstólnum í Haag.

Hér má sjá listann í heild (pdf-skjal).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert