Óljóst hvort þyrlan sé fundin

Skjáskot úr sjónvarpsinnslagi úr þyrlu forsetans (t.v) fyrir slysið. Utanríkisráðherra …
Skjáskot úr sjónvarpsinnslagi úr þyrlu forsetans (t.v) fyrir slysið. Utanríkisráðherra Íran, Hossein Amir-Abdollahian (t.h.), er með í för. AFP

Óljóst er hvort björgunarteymi í Íran hafi fundið þyrlu forseta landsins, Ebrahim Raisi.

Í umfjöllun Reuters, þar sem vísað er í beina útsendingu ríkissjónvarps Írans, segir að þyrla forsetans sé fundin. Rauði hálfmáninn í Íran segir aftur á móti þær upplýsingar ekki vera réttar. 

Tveir úr fylgdarliði forsetans hafi haft samband

Fregnir af leit þyrlunnar hafa verið óljósar fram til þessa en hún er sögð hafa nauðlent harkalega vegna veðurskilyrða í norðvesturhluta landsins. Var þyrlan á leið frá Aserbaísjan til írönsku borgarinnar Tabriz í fylgd tveggja annarra þyrla. 

Ríkismiðillinn IRNA hefur eftir varaforseta framkvæmdasviðs landsins, Mohsen Mansouri, að tveir úr fylgdarliðið forsetans hafi verið í sambandi við björgunarteymi, sem gefi til kynna að flugslysið hafi ekki verið mjög alvarlegt. 

Segir Mansouri það einnig lofa góðu að samgönguráðuneyti Íran hafi tekist að rekja nauðlendingu þyrlunnar til svæðis með tæplega tveggja kílómetra radíus

Frá flugtaki þyrlunnar í dag.
Frá flugtaki þyrlunnar í dag. AFP

Hvetur þjóðina til að halda ró sinni

Ayatollah Ali Khamenei, æðstiklerkur Íran, hefur biðlað til þjóðarinnar að biðja fyrir forsetanum og sömuleiðis hvatt til þess að fólk haldi ró sinni. Sagði hann hvarf forsetans ekki hafa áhrif á stjórn landsins.

Finnist forsetinn ekki á lífi tekur Mohammad Mokhber, varaforseti landsins, við embættinu en samkvæmt stjórnarskrá ættu forsetakosningar að fara fram innan 50 daga.

Í för með Raisi í þyrlunni var utanríkisráðherra landsins, Hossein Amir-A­bdolla­hi­an, en um 40 björgunarteymi leita nú þyrlunnar á svæðinu en leitin hefur reynst erfið vegna þoku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert