Hillur tæmast og skólar loka í Færeyjum

Hafnarstarfsmenn og sorphirðufólk hefur m.a. lagt niður ströf.
Hafnarstarfsmenn og sorphirðufólk hefur m.a. lagt niður ströf. mbl.is/Sigurður Bogi

Eldsneyti er víða uppurið í Færeyjum vegna umfangsmikils verkfalls sem hefur staðið yfir síðan 14. maí. Hillur í matvöruverslunum eru margar tómar, dagheimilum fyrir börn hefur verið lokað og stefnir í að allir skólar í Þórshöfn loki líka ef samningar nást ekki.

Fé­lags­menn í Føroya arbeiðara­felagi, Havn­ar arbeiðara­felagi, Klaks­vík­ar arbeiðskvinnu­felagi og Klaks­vík­ar arbeiðsmanna­felagi lögðu niður vinnu 11. maí og standa verkföllin enn yfir.

Hafnarstarfsmenn, strætóbílstjórar, sorphirðufólk og ræstingarstarfsmenn hafa m.a. lagt niður störf og hefur það haft ýmsar afleiðingar. Eldsneyti er tekið að þrjóta, almenningssamgöngur liggja að mestu niðri, ferjuferðir raskast og rusl er tekið að safnast upp víða.

Enn sér ekki fyrir endann á verkfallinu og eng­ir samn­inga­fund­ir hafa verið boðaðir.

Dagheimili og skólar loka 

Skólastjórendur hafa margir hverjir þurft að grípa til þess ráðs að loka skólum. Auk þess hefur í það minnsta 15 dagheim­il­um í Þórs­höfn verið lokað vegna þess að sorp hef­ur ekki verið hirt, samkvæmt Blaðinu.

Heini Gaard, forstöðumaður menntamála í Þórshöfn, segir við Kringvarpið að líklega muni allir skólar í sveitarfélaginu vera lokaðir eftir eina eða tvær vikur ef sátt næst ekki.

Sumir skólar hafa þá þegar lokað. Heyvíkurskóli mun ekki leyfa nemendum að mæta í skólann á morgun.

Hillur galtómar í matvöruverslunum

Díselolía er búin á flestum bensínstöðvum og hillur eru farnar að tæmast í matvöruverslunum.

Dettifoss, vöruflutningaskip Eimskipa, kemst ekki heldur til Færeyja vegna verkfallsins, samkvæmt tilkynningu frá Royal Arctic Line frá föstudag.

Detti­foss, sem er með heima­höfn í Þórs­höfn og sigl­ir undir fær­eysku flaggi, flyt­ur vör­ur á milli meginlands Evr­ópu, Fær­eyja og Íslands.

Eldsneytisskorturinn hefur einnig áhrif á trúarstarf í landinu þar sem prestar komast ekki eins vel á milli staða, greinir þjóðkirkja Færeyja frá. Þó hefur eldsneyti verið tekið frá fyrir neyðartilfelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert