Langt verkfall í Færeyjum

Frá Þórshöfn í Færeyjum.
Frá Þórshöfn í Færeyjum. mbl.is/Sigurður Bogi

Engin lausn er í sjónmáli í vinnudeilu milli fjögurra verkalýðsfélaga í Færeyjum og atvinnurekenda. Verkfallið hefur nú staðið í 11 daga og segja færeyskir fjölmiðlar að engir samningafundir hafi verið boðaðir. 

Félagsmenn í Føroya arbeiðarafelagi, Havnar arbeiðarafelagi, Klaksvíkar arbeiðskvinnufelagi og Klaksvíkar arbeiðsmannafelagi lögðu niður vinnu 11. maí sl. 

Verkfallið hefur haft töluverð áhrif á færeyskt samfélag. Færeyska útvarpið segir, að 15 dagheimilum í Þórshöfn hafi verið lokað vegna þess að sorp hefur ekki verið hirt. Þá kunni eldsneyti að þrjóta á bensínstöðvum dragist verkfallið enn frekar á langinn og hafa Færeyingar verið hvattir til að fara sparlega með eldsneyti á bíla sína.

Verkfallsverðir reyndu að koma í veg fyrir að ferðamönnum, sem komu með farþegaskipi til Þórshafnar, yrði ekið um eyjarnar. 

Á vefnum portal.fo kemur fram, að dragist verkfallið enn á langinn kunni það að hafa áhrif á heimsókn dönsku konungshjónanna til Færeyja, en hún er áformuð 12.-14. júní.  Haft er eftir Aksel V. Johannesen, lögmanni Færeyja, að standi verkfallið enn viku áður en von er á konungshjónunum kunni að þurfa að endurskoða dagskrána. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert