Eldvörpin byrjuð að gefa eftir

Gígaröðin í Eldvörpum.
Gígaröðin í Eldvörpum. mbl.is/Sigurður Bogi

Ármann Hösk­ulds­son, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði við Há­skóla Íslands, telur að skjálftar í Eldvörpum séu til marks um að svæðið sé farið að gefa eftir. 

Telur hann nú merki um að kvikan leiti meira vestur úr en tekur fram að hún komist ekki upp til yfirborðs nema það sé greið leið. 

Breytingar neðanjarðar

Ármann segir breytingu hafa orðið í síðasta gosi samanborið við gosin á undan. Þannig hafi síðasta gos staðið yfir mun lengur en þau sem komu á undan. Einhverjar breytingar hafi orðið neðanjarðar.

„Það er eins og kvikan sé að leita meira vestur úr. Mín skoðun er sú að næst komi það [eldgos] í eldvörpum,“ segir Ármann í samtali við mbl.is og bætir við að innrennsli í kvikuhólfið undir Svartsengi sé nú hægara miðað við öll hin gosin.

Ármann Hösk­ulds­son, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði við Há­skóla Íslands.
Ármann Hösk­ulds­son, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði við Há­skóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Skjálftahrina syðst í Eldvörpum

„Ef það fer að fara út í Eldvörp þá verða meiri skjálftar eins og voru í gær. Þá var svona hrina úti á Reykjanestá og lítil hrina syðst í Eldvörpum.

Það segir okkur strax að það svæði er byrjað að gefa eftir því kvikan kemst ekkert upp nema það sé greið leið. Kvikan býr ekki til leiðina, það eru flekahreyfingarnar sem sjá um það,“ segir Ármann.

Hann segir Eldvörpin vera einn þægilegasta möguleikann hvað varðar staðsetningu gossprungu.

„Eldvörpin eru tiltölulega flöt. Ef það kemur miðsvæðis eða sunnarlega í Eldvörpum þá rennur hraun bara út í sjó suður af.

Aftur á móti gjósi aðeins norðar þá erum við aftur í þessum vandamálum með heitavatnssvæðin og fleira,“ segir Ármann.

Ómögulegt að segja til um tímasetningu

Ármann segir víst að atburðinum sé ekki lokið. Hann gæti alveg staðið yfir í áratugi. Það þýði þó ekki að Sundhnúkagígarnir eigi eftir að vera virkir í tíu ár.

„Hvort að það fari að gjósa í nótt eða á morgun eða eftir mánuð eða eftir ár, við höfum ekki hugmynd um það,“ segir Ármann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert