Gagnrýna fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar

Fjárlagaráð segir stjórnarsáttmála og fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar hennar skorta samhljóm.
Fjárlagaráð segir stjórnarsáttmála og fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar hennar skorta samhljóm. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármálaráð telur tillögu að fjármálastefnu fyrir árin 2022-2026 skorta samhljóm með nýjum stjórnarsáttmála. Þá gagnrýnir ráðið einnig að fjárlög fyrir næsta ár verði samþykkt áður en fjármálastefnan fái þinglega afgreiðslu.

Þetta kemur fram í álitsgerð fjármálaráðs.

Staða opinberra fjármála góð

Í álitsgerðinni kemur fram að staða opinberra fjármála sé góð og þá sérstaklega í samanburði við önnur lönd.

„Þrátt fyrir þann ólgusjó sem efnahagslífið hefur siglt í gegnum á síðustu árum verður ekki annað sagt en að staða opinberra fjármála sé góð, sérstaklega í samanburði við mörg önnur lönd og fortíðina. Fjármálaráð telur að hér hafi sá lagarammi sem gildir um stefnumörkun í opinberum fjármálum og mótar verklag við hana, enn og aftur sannað gildi sitt,“ segir í álitsgerðinni.

„Ekki í anda grunngildis um gagnsæi

„Tímasetning framlagningar fjármálastefnu skiptir máli fyrir mótun og afgreiðslu hennar. Hún má helst ekki vera of aðkreppt í tíma og af öðrum viðfangsefnum. Framsetning hennar krefst þess að tekið sé mið af fjárhagslegum og efnahagslegum áhrifum af áformum stjórnvalda og gerir ríka kröfu um gagnsæi um hver áformin séu, áhrif þeirra og hvernig þau birtast.

Enn og aftur hefur hringrás stefnumörkunarinnar verið rofin. Það er skylda fjármálaráðs að benda á neikvæð áhrif þess. Nú er það svo að fjárlög fyrir næsta ár verða samþykkt áður en fjármálastefna nýrrar ríkisstjórnar hefur fengið þinglega afgreiðslu. Það er bagalegt þar sem fjármálastefnan skal vera hornsteinn næstu fjármálaáætlana og fjárlaga.

Samhljóm skortir milli stjórnarsáttmála og framlagðrar fjármálastefnu. Stjórnvöld hafa boðað að hagkerfið muni vaxa til velsældar með jákvæðum áhrifum á afkomu og skuldir hins opinbera. Ekki er vísað til þeirra sjónarmiða með beinum hætti í framlagðri fjármálastefnu og er slíkt ekki í anda grunngildis um gagnsæi,“ segir í álitsgerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert