Þreyta og uppgjöf dragi ekki úr okkur þrek og þor

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allt stefndi í að með því að bæta þriðju bólusetningunni við væri hægt að hamla útbreiðslu kórónuveirunnar en Ómíkron-afbrigðið hefur komið með leifturhraða inn á sjónarsviðið og sett fyrri áætlanir í uppnám. Útlit er fyrir að afbrigðið nái yfirhöndinni og taki yfir Delta-afbrigðið á næstum dögum og vikum. Núna er hlutfall Ómíkron komið upp í um 70% af þeim smitum sem greinast.

Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna.

Hann sagði Ómíkron smitast mun meira en önnur afbrigði og að það þýði að mun fleiri smitist á styttri tíma en áður. Sjúkdómseinkennin eru svipuð en vísbendingar eru uppi um að alvarleg einkenni séu fátíðari, miðað við upplýsingar frá Suður-Afríku og Danmörku.

Flestir sem hafa greinst með afbrigðið í Danmörku er ungt, fullfrískt og fullbólusett fólk. Hugsanlegt er að staðan breytist ef smit greinast í auknum mæli hjá viðkvæmum hópum, sagði Þórólfur.

Jákvæð tíðindi frá Danmörku

Á milli 0,5  til 1% þeirra sem hafa greinst með Ómíkron-afbrigðið Danmörku hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús. Til samanburðar hafa 1,5% Dana þurft að leggjast inn vegna Delta-afbrigðisins.

Þórólfur sagði þetta jákvæð tíðindi en í ljósi mikillar smithæfni og hraðrar útbreiðslu getur útkoman orðið sú að margir gætu veikst alvarlega og þurft að leggjast inn á sjúkrahús á stuttum tíma. Álag á spítalakerfið gæti því orðið mikið hérlendis með alvarlegum afleiðingum.

Benti á mikilvægi örvunarskammts

Varðandi vernd við afbrigðinu sagði Þórólfur tvær rannsóknir frá Danmörku og Bretlandi gefa vísbendingar um að bólusetningar með tveimur sprautum veiti þokkalega vernd gegn smiti og alvarlegum einkennum en að verndin batni töluvert mikið eftir örvunarskammt, bæði hvað varðar útbreiðslu smita og alvarleg veikindi.

Hann sagði óljóst hversu margir muni veikjast alvarlega á næstunni en til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu smita líkt og verið hefur í Danmörku og neyðarástand á Landspítalanum þurfi að grípa til ráða sem vitað er að virki gegn veirunni. Þórólfur benti á mikilvægi örvunarskammts, almennra sóttvarna og að forðast fjölmenni í því samhengi.

Hann kvaðst vonast til þess að fólk standi saman í baráttunni um aðgerðirnar sem farið hefur verið í því þær skili árangri. Í framhaldinu yrði hægt að aflétta takmörkunum. „Það er ljóst að mikil þreyta og uppgjöf er komin í nánast alla í samfélaginu gagnvart Covid-19 en við megum ekki láta það draga úr okkur þrek og þor,“ sagði hann og bætti við að við viljum ekki sjá alvarlegum heilsufarsafleiðingum fjölga vegna veirunnar. 

BIðröð eftir því að komast í hraðpróf.
BIðröð eftir því að komast í hraðpróf. mbl.is/Unnur Karen

Alls kyns vandamál vegna hraðprófa

Spurður hvort hraðprófin séu óáreiðanlegri en talið var í fyrstu sagðist Þórólfur hafa heyrt af alls kyns vandamálum í tengslum við hraðprófin. Ekki væru til góð gögn um þá sem greindust neikvæðir á hraðprófi en jákvæðir á PCR-prófi.

Aftur á móti hafi hátt í helmingur þeirra sem hafa greinst jákvæðir á hraðprófi reynst neikvæðir í raun og veru. „Það vekur spurningar um áreiðanleika prófanna,“ sagði Þórólfur og nefndi að mikilvægt væri að treysta ekki um of á hraðgreiningarpróf. Þeir sem séu með einkenni skuli fara í PCR-próf.

Bólusetning barna á aldrinum 12 til 15 ára hófst af …
Bólusetning barna á aldrinum 12 til 15 ára hófst af alvöru í ágúst. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alvarlegar aukaverkanir fátíðar

Spurður út í fyrirhugaðar bólusetningar barna á aldrinum 5 til 11 ára sagði hann gögn frá Evrópu og Bandaríkjunum sýna að alvarlegar afleiðingar hjá börnum á þessum aldri sem veikjast af Covid-19 vera svo sannarlega til staðar.

Hér landi hefur ekkert barn verið lagt inn á spítala á þessum aldri en sjö yngi börn hafa verið lögð inn. Um 100 börn á aldrinum 5-11 ára eru á gulu, eða í nánu eftirliti vegna veikinda af völdum Covid.

Varðandi bólusetningarnar og aukaverkanir hafa fengist upplýsingar frá Bandaríkjunum varðandi sjö milljónir barna sem hafa verið bólusett. Alvarlegar aukaverkanir hafa verið mjög fátíðar. Tvö mjög fjölfötluð börn hafa látist auk þess sem bólga í hjartavöðva hefur orðið eftir eina af hverjum milljón bólusetningum.

Þórólfur sagðist sannfærður um að alvarlegar afleiðingar af völdum Covid væru miklu alvarlegri en afleiðingarnar af bólusetningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert