„Af hverju er þetta ekki löngu orðið til?“

Kristinn Örn Kristinsson, Kjartan Örn Bogason og Friðrik Snæ Ómarsson.
Kristinn Örn Kristinsson, Kjartan Örn Bogason og Friðrik Snæ Ómarsson. Ljósmynd/Aðsend

Vefsíðan Minningar.is fór í loftið í dag en um er að ræða vef sem auðveldar fólki að varðveita minningu látins ástvinar. Vefsíðan varð til í kjölfar lokaverkefnis í hugbúnaðarverkfræði við Háskólann í Reykjavík sem þeir Kjartan Örn Bogason, Kristinn Örn Kristinsson og Friðrik Snær Ómarsson unnu að.

„Þetta hefur lengi verið hugmynd hjá foreldrum mínum,“ segir Kjartan í samtali við mbl.is og bætir við að þegar komið hafi að því að velja lokaverkefni fyrir BS-gráðuna í háskólanum hafi hann ákveðið að taka hugmyndina að sér og fengið Kristin og Friðrik með sér í lið.

Byrjuðu upp á nýtt

Að útskrift lokinni langaði þá að halda áfram með verkefnið og fengu englafjárfestingafélagið Tennin ehf. til að fjárfesta í verkefninu.

„Þetta þróaðist mjög hratt. Við í rauninni byrjuðum upp á nýtt eftir útskrift og fengum með okkur til liðs Hugsmiðjuna. Þau þróuðu hugmyndina áfram, hönnuðu merkið og vefsíðuna og aðstoðuðu okkur við að forrita síðuna. Svo hefur þetta gengið svona ótrúlega vel og hratt.“

Vefsíðan var opnuð í dag og voru þeir félagar viðstaddir er Guðni Th. Jóhannesson forseti var fyrstur til að stofna minningarsíðu, um Jón Sigurðsson.

Vefurinn var formlega opnaður í dag á Bessastöðum.
Vefurinn var formlega opnaður í dag á Bessastöðum. Ljósmynd/Aðsend

Halda ótrauðir áfram

Vefurinn er gjaldfrjáls og býður einnig upp á hagnýtar upplýsingar um útfarir og annað sem tengist andlátum.

„Grunnpælingin er að þú stofnar minningarsíðu um ástvin og svo getur hver sem er komið að og skrifað minningargreinar, sett inn myndir og svo framvegis,“ segir Kjartan og bætir við að sá sem á minningarsíðuna geti falið minningargreinar sem aðrir setja inn.

Félagarnir munu halda ótrauðir áfram vinnu að síðunni og segir Kjartan að nú þegar hafi þeir hugmyndir um uppfærslur og nefnir að hægt verði að setja inn myndbönd, sálmaskrá og fleira. „Vefurinn verður í stanslausri þróun.“

„Ég hef haft þessa hugmynd mjög lengi

„Það eru tvenns konar viðbrögð sem pabbi fær alltaf þegar hann er að segja frá verkefninu: „af hverju er þetta ekki löngu orðið til?“ og „ég hef haft þessa hugmynd mjög lengi“,“ segir Kjartan og hlær en foreldrar hans, Bogi Þór Siguroddson og Linda Björk Ólafsdóttir, eru aðaleigendur Tennin ehf. 

Hann segir að þeir félagarnir haldi áfram að vinna í verkefninu en útiloki ekki neitt framhaldsnám. 

„Það er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér, við ætlum bara að halda öllum dyrum opnum og það verður bara að koma í ljós hvað við gerum,“ segir Kjartan að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert