Til skoðunar að aflétta meira og hraðar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skorar á fólk að standa saman á …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skorar á fólk að standa saman á „síðustu metrunum“. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin skoðar það nú í samráði við sóttvarnalækni að ráðast í frekari afléttingar á sóttvarnareglum en áður hafði verið kynnt, t.a.m. breytingar á einangrun og sóttkví. Þá vonast Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir til þess að mögulegt verði að aflétta aðgerðum hraðar en kynnt var um í síðustu viku. Hann telur góðar líkur á að Íslendingar „nái í mark“ í baráttunni í lok mars.

„Ástandið vegna Covid-19 hefur því lagast og sömuleiðis hefur álagið á spítalann minnkað. Því er nú til skoðunar af stjórnvöldum í samráði við sóttvarnalækni að aflétta ýmsum íþyngjandi aðgerðum til viðbótar við þær aðgerðir sem ráðist var í í síðustu viku. Þannig tel ég skynsamt að halda áfram að aflétta í ákveðnum skrefum og miða afléttingarnar við st0ðuna eins og hún er. Vonandi verður hægt að aflétta hraðar en kynnt var í síðustu viku,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Þórólfur vinnur nú með fleirum að nýju áhættumati um faraldurinn. Það verður kynnt fljótlega. 

„Það sem er í skoðun er hvort sé hægt að einfalda eitthvað einangrunartímann, einfalda sóttkvína eitthvað enn frekar og síðan eru það þessar almennu takmarkanir sem eru í reglugerðinni sem eru til skoðunar,“ sagði Þórólfur.

Náum jafnvel fyrr í mark

Landspítali var í gær færður af neyðarstigi á hættustig og hið sama má segja um almannavarnastig vegna Covid-19. Í síðustu viku kynnti ríkisstjórnin áætlun til þess að aflétta sóttvarnaaðgerðum innanlands í þremur skrefum. Miðað við þá áætlun eiga Íslendingar að losna alveg við aðgerðir innanlands í marsmánuði. 

Þórólfur sagðist hafa heyrt raddir á báða bóga um þetta, þær sem þykir stjórnvöld ætla að létta of hratt og þær sem þykir stjórnvöld geta tekið stærri skref. Aftur á móti sagðist Þórólfur telja að yfirvöld væru að gera sitt besta til þess að aflétta á öruggan hátt en þetta væri sífellt í endurskoðun.

„Ég tel að góðar vonir séu til þess að við munum ná í mark í þessari baráttu, í þessu langhlaupi um síðari hluta mars og jafnvel fyrr ef ekkert óvænt kemur upp á,“ sagði Þórólfur.

„Ég vil skora á alla að standa saman um það sem þarf að gera þessa síðustu metra í þessu langa maraþonhlaupi.“

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert