Búið að áætla tjón vegna vatnslekans

Einhver hreyfing er á vatnslekamálinu, að því er Jón Atli …
Einhver hreyfing er á vatnslekamálinu, að því er Jón Atli Benediktsson staðfestir við mbl.is. mbl.is/Hari

Háskóli Íslands hefur fengið afhenta matsskýrslu á umfangi tjóns sem varð eftir vatnslekann í maí á síðasta ári. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort farið verði í mál vegna tjónsins.

Gömul vatnslögn Veitna gaf sig svo vatn flæddi í skólastofur sem hafa margar verið ónothæfar vegna þessa en gróflega er talið að tjónið hlaupi á hundruðum milljóna króna.

Leggjast yfir skýrsluna og skoða næstu skref

„Það kom fyrri skýrsla um orsakir tiltölulega fljótlega en skýrsla um umfang tjónsins var að berast nýlega. Við erum að fara yfir hana og ákveða næstu skref,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Hann er ekki tilbúinn að gefa upp upphæð tjónsins strax, en það komi í ljós á næstu dögum, þar sem gögnin þarfnist yfirlegu.

Í mars voru teknar skýrslur af fulltrúum Veitna, VÍS, Mannvits, SS Verktaks, TM trygginga og Varðar trygginga, með þann tilgang að afla gagna ef upp komi ágreiningur um hver beri ábyrgð í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert