Hjarðónæmi náist í næsta mánuði

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helsta leiðin til að komast út úr kórónuveirufaraldrinum að mati sóttvarnalæknis er sú að hér skapist gott samfélagslegt ónæmi gegn veirunni sem hægi á faraldrinum og hann stöðvaðist að lokum. Eina leiðin til þess er að sem flestir smitist af veirunni og búast má við því að 80% landsmanna hafi smitast í lok næsta mánaðar.

Þetta kemur fram í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis en í hádeginu var greint frá því að á föstudag verður öllum takmörkunum vegna faraldursins aflétt.

Þórólfur segir ljóst að samfélagslegt ónæmi gegn smiti náist ekki með þeim bóluefnum sem standi til boða þó þau verndi gegn alvarlegum veikindum.

„Í dag hafa um 110.000 manns verið greindir með Covid-19 og áætlað hefur verið út frá mótefnamælingum að svipaður fjöldi hafi smitast án þess að greinast. Ef það reynist rétt, þá má ætla að með núverandi fjölda daglegra smita muni 80% markinu vera náð eftir nokkrar vikur eða í seinni hluta mars mánaðar 2022,“ skrifar Þórólfur en á bilinu 2.000 til 2.800 greinast nú daglega með veiruna.

Staðan aldrei þyngri á spítölum og stofnunum

Landlæknir hefur sent heilbrigðisráðherra yfirlit um mat stjórnenda á stöðu heilbrigðisstofnana, hjúkrunarheimila og spítala vegna faraldursins. Þar kemur fram að staðan hafi aldrei verið þyngri og eru allt að 11% starfsmanna frá vinnu vegna veirunnar og víða erfitt að halda uppi grunnþjónustu.

Staðan þyngist vikulega en á Landspítala leggist nú inn 5-11 sjúklingar, ýmist með eða vegna Covid en fjöldi útskrifta er svipaður.

„Aukin samfélagsleg útbreiðsla hefur einnig leitt til þess að dauðsföllum eldri einstaklinga með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma sem smitaðir eru af Covid-19 hefur fjölgað og er Covid-19 í flestum tilfellanna talinn eiga þátt í andlátunum. Það sem af er febrúarmánuði hafa 17 einstaklingar látist þar sem Covid-19 er tilgreindur sem samverkandi ástæða. Þannig er Covid-19 nú að valda miklum erfiðleikum víða í samfélaginu vegna mikillar útbreiðslu en alvarlegar veikindi eru fátíðari en áður,“ skrifar Þórólfur.

Óbreyttar aðgerðir, hert eða öllum takmörkunum aflétt

Stjórnvöld þurfa því að haga opinberum sóttvarnaaðgerðum á þann veg, að fjöldi daglegra smita verði ekki meiri en svo, að hér skapist ekki ófremdarástand vegna útbreiddra veikinda, skrifar Þórólfur sem, líkt og stundum áður, lagði til þrjá valkosti í minnisblaði sínu:

Óbreyttar takmarkanir, hertar aðgerðir, þá helst vegna fjarveru starfsfólks spítala og stofnana eða aflétting allra aðgerða. Eins og fram hefur komið verður öllum takmörkunum aflétt á föstudag og segir Þórólfur að það muni vafalaust leiða til aukinnar útbreiðslu smita og þannig auka fjarvistir starfsmanna.

Einnig er líklegt að alvarleg veikindi af völdum Covid-19 muni aukast sérstaklega hjá óbólusettum og einstaklingum með undirliggjandi sjúkdóma. Þessar afleiðingar yrðu hins vegar að öllum líkindum tímabundnar þar til að gott samfélagslegt ónæmi mun skapast.

Hann bendir enn fremur á nokkur atriði sem hann biður fólk að hafa í huga:

Einstaklingum sem greinast með Covid-19 verði ekki lengur skylt að dvelja í einangrun en þess í stað yrðu gefin út tilmæli um að þeir haldi sig í einangrun í a.m.k. 5 daga frá greiningu. Þeir sem eru með lítil sjúkdómseinkenni geti mætt til vinnu með ákveðnum leiðbeiningum um sóttvarnir sem nú gilda fyrir þá sem undanþágu fá frá einangrun.

Greining á Covid-19 myndi ekki byggja lengur eingöngu á greiningu með PCR prófi heldur myndi greining með hraðgreiningaprófum einnig gilda.

Heilsugæslan og einkarekin fyrirtæki gætu boðið almenningi upp á greiningu með hraðgreiningaprófum sem ekki þyrfti að staðfesta með PCR prófi. Sóttvarnalæknir myndi skrá jákvæðar niðurstöður úr hraðgreiningaprófum sem yrðu ígildi PCR greininga. Gera þarf ráð fyrir opinberri notkun hraðgreiningaprófa a.m.k. út mars mánuð 2022.

Jákvæðar niðurstöður á heimaprófi yrði ekki hægt að skrá í gagnagrunn sóttvarnalæknis og þær þyrftu að staðfesta með opinberu hraðgreiningaprófi.

PCR próf yrðu áfram notað samkvæmt ábendingu lækna til greiningar og fyrir ferðamenn vegna ferða til landa sem krefjast neikvæðra niðurstaða PCR prófa.

Grímunotkun verði valkvæð sem og eins metra nándarregla.

Óbreytt fyrirkomulag yrði út mars mánuð a.m.k. á eftirliti með þeim sem greinast með Covid-19 bæði hjá heilsugæslunni og covid göngudeild Landspítalans.

Yfirvöld þurfa áfram að vera tilbúin að grípa til opinberra sóttvarnaráðstafana með litlum fyrirvara ef hingað berast ný afbrigði kórónuveirunnar sem valda alvarlegum sjúkdómi og ónæmi af fyrri sýkingum eða bólusetningum vernda illa gegn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert