2.590 augasteinar á biðlista

Frá augasteinaaðgerð.
Frá augasteinaaðgerð. Ljósmynd/Ólafur Már Björnsson

Bið eftir skurðaðgerðum var í byrjun árs orðin lengri en sem nemur viðmiði embættis landlæknis um ásættanlega bið eftir heilbrigðisþjónustu í næstum öllum flokkum skurðaðgerða sem til skoðunar voru í greinargerð embættis landlæknis.

Viðmiðið er að 80% fólks komist í aðgerð innan þriggja mánaða en sú var ekki raunin nema í fjórum af þeim átján flokkum sem voru til skoðunar í greinargerðinni.

Þannig höfðu þann 1. janúar 89% sjúklinga beðið lengur en í þrjá mánuði eftir aðgerðum vegna vélindabakflæðis og þindarslita, 81% voru í sömu biðstöðu vegna skurðaðgerða á maga vegna offitu, 79% vegna brennsluaðgerða á hjarta, 78% vegna skurðaðgerða á augasteinum og svo mætti lengi telja.

Ótalinn biðtími hjá skurðlækni á göngudeild

Þrátt fyrir þetta voru skurðaðgerðir vegna lífsógnandi sjúkdóma framkvæmdar innan tímamarka í flestum tilvikum, þ.e. innan viku og innan fjögurra vikna, að undanskildum fyrrnefndum brennsluaðgerðum á hjarta.

„Hafa þarf í huga að ekki er um að ræða heildarbiðtíma eftir tiltekinni aðgerð. Eingöngu er átt við biðtíma frá því að einstaklingur var skráður á biðlista fyrir aðgerð, ótalin er bið eftir tíma hjá skurðlækni á göngudeild til að meta þörf fyrir aðgerð,“ segir í greinargerð embættis landlæknis.

Margir biðu liðskiptaaðgerða

Flestir biðu eftir skurðaðgerðum á augasteinum í upphafi árs en beðið var eftir 2.590 slíkum aðgerðum. Um er að ræða talningu á aðgerðum en ekki einstaklingum því einstaklingur getur verið að bíða eftir aðgerð á báðum augum. Fleiri hafa ekki beðið eftir aðgerðum af þessum toga síðan árið 2016.

2.642 augasteinaaðgerðir voru framkvæmdar í fyrra en þær voru um 600 færri en árið á undan.

„Að mati landlæknis er brýnt að fjölga skurðaðgerðum á augasteini til að anna þeirri þörf sem er til staðar og ná aftur viðmiðum um ásættanlega bið, en biðtími hefur lengst mikið frá árinu 2019,“ segir í greinargerð embættisins.

Hvað varðar liðskiptaaðgerðir þá biðu 570 manns eftir liðskiptum á mjöðm í upphafi árs og 1.162 biðu eftir liðskiptum á hné.

„Fjöldi liðskiptaaðgerða hefur aukist síðustu ár og voru 324 fleiri aðgerðir gerðar árið 2021 en árið áður. Þrátt fyrir þessa aukningu á fjölda aðgerða er biðtími enn langt umfram viðmið og fjölga þyrfti liðskiptaaðgerðum enn meira til þess að stytta bið,“ segir í greinargerð embættis landlæknis.

Spurn eftir aðgerðum vegna offitu aukist

Þar kemur einnig fram að á síðustu árum hafi spurn eftir skurðaðgerðum vegna offitu aukist. Þær eru framkvæmdar hjá Klíníkinni og Landspítala.  

„Biðin á Landspítala hefur lengst þrátt fyrir aukinn fjölda aðgerða og er langt umfram viðmið en ekki bárust upplýsingar frá Klíníkinni um þennan aðgerðaflokk og því er ekki hægt að meta stöðuna,“ segir í greinargerð embættis landlæknis.

„Vaxandi fjöldi Íslendinga glímir við offitu og því er mikilvægt að fylgjast vel með aðgengi að slíkum aðgerðum. Landlæknir ítrekar fyrri ráðleggingar um að brýnt er uppfæra og innleiða aðgerðaráætlun til að draga úr tíðni offitu og þar sem bæði er hugað að forvörnum og meðferð.“

Færri aðgerðir vegna Covid-álags

Í greinargerðinni segir að kórónuveirufaraldurinn eigi þátt í löngum biðtíma.

„Þótt áhrifanna hafi sérstaklega gætt árið 2020, þegar aðgerðir sem gátu beðið voru ekki framkvæmdar á tímabili, gætti áhrifa faraldursins líka á árinu 2021. Færri aðgerðir voru til að mynda skipulagðar um tíma vegna álags á heilbrigðisstofnunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka