Skoða að koma upp álendurvinnslu í Helguvík

Helguvíkurhöfn.
Helguvíkurhöfn. Ljósmynd/Reykjaneshafnir

Reykjanesbær hefur gert samkomulag við bandaríska fyrirtækið Almex USA, í gegnum íslenskt dótturfélag, að skoða möguleika á að setja upp endurvinnslu á áli í Helguvík, en Almex sérhæfir sig í framleiðslu á búnaði fyrir úrvinnslu og endurvinnslu á áli. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Reykjanesbæ, en þar er sérstaklega tekið fram að um sé að ræða umhverfisvæna endurvinnslu sem verði hluti af sjálfbæru hringrásarhagkerfi.

Áætluð ársframleiðsla endurvinnslunnar er 45 þúsund tonn í fyrri áfanga, en reiknað er með að starfsmenn geti orðið 60 þegar fullum afköstum er náð. Segir í tilkynningunni að sveitarfélagið horfi til þess að afleidd tækifæri af slíkri starfsemi geti styrkt atvinnuþróun á svæðinu.

Jafnframt segir þar að verkefnið sé í samræmi við stefnu Reykjanesbæjar um að í Helguvík byggist upp iðnaður sem hafi jákvæð áhrif á umhverfið og samfélagið. Kvittar Kjartan Már Kjartansson undir tilkynninguna fyrir hönd Reykjanesbæjar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert