Segir NATO-aðild tryggja öryggi, ekki ESB

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Við erum stofnaðilar að langöflugasta öryggis- og varnarsamstarfi í heimi og þar gengur okkur vel,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra þegar hún var spurð um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, benti á að í gær hafi umsókn Svía og Finna að Atlantshafsbandalaginu (NATO) verið rædd og nú vilji Danir taka þátt í varnarsamstarfi Evrópusambandsins. Hún sagði að í Noregi væri samtalið um aðild að Evrópusambandinu að hefjast að nýju.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvernig er verið að undirbúa okkur fyrir mögulegar breytingar? Er unnið að mismunandi sviðsmyndagreiningum? Hvað þýðir það fyrir Ísland og Noreg í þessu samhengi að standa utan Evrópusambandsins nú þegar Svíar og Finnar eru á leiðinni inn í NATO og eru fyrir í Evrópusambandinu? Hvað þýðir þetta t.d. þegar kemur að norrænu varnarsamstarfi? Og hvað myndi það þýða fyrir Ísland að vera eitt utan Evrópusambandsins ef Noregur færi inn? Hvernig munum við bregðast við mismunandi þróun mála? Er í gangi vinna með endurskoðað hagsmunamat í öryggismálum Íslands miðað við breytta stöðu í Evrópu og miðað við breytingar sem eru ekki bara mögulegar heldur hafa raungerst?“ spurði Hanna Katrín.

Ráðherra segir Ísland í góðum málum

Þórdís Kolbrún sagði staðreyndina þá að Evrópusambandsríkin væri til að mynda með innan við 20% af fjármögnum ríkja NATO þegar kemur að varnartengdum verkefnum og ríki utan þess 80%. 

Við fylgjumst nú með áformum og áætlunum Evrópusambandsins um að styrkja sig á því sviði. Það er þó ekki í fyrsta sinn sem það er reynt. Kannski mun það taka einhverjum breytingum nú,“ sagði ráðherra.

Auk þess að vera stofnaðilar að NATO sagði Þórdís Kolbrún að Ísland væri með varnarsamning við Bandaríkin og út frá öryggis- og varnarhagsmunum erum við í góðum höndum. „Hagsmunum okkar er vel borgið innan þess samstarfs sem við erum nú í og út frá Evrópusamstarfi erum við með EES-samninginn þar sem hagsmunum okkar er betur borgið en með aðild að Evrópusambandinu og öllu sem því fylgir,“ sagði Þórdís Kolbrún.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert