Met slegið í brottförum Íslendinga af landinu

Íslendingar flugu til útlanda sem aldrei fyrr í maímánuði.
Íslendingar flugu til útlanda sem aldrei fyrr í maímánuði. mbl.is/​Hari

Met var slegið í brottförum Íslendinga frá landinu í maí en þær voru 65 þúsund talsins samkvæmt talningu Ferðamálastofu og hafa ekki mælst svo margar í maí frá því mælingar hófust.

Þegar mest var, eða í maí 2018, mældust þær tæplega 63 þúsund og þar á eftir fylgdu brottfarir í maí árið 2019 sem voru 57 þúsund talsins.

Frá áramótum hafa brottfarir Íslendinga mælst um 200 þúsund talsins eða um og yfir 80 prósent af því sem þær mældust á sama tímabili 2018 og 2019.

112 þúsund brottfarir erlendra farþega 

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 112 þúsund í maímánuði samkvæmt talningu Ferðamálastofu og er að ræða fimmta fjölmennasta maímánuðinn frá því mælingar hófust.

Brottfarir í maí voru um 68 prósent af því sem þær voru í maímánuði 2018 þegar mest var og um 89 prósent af því sem þær voru í maímánuði 2019.

Flestar brottfarir í maí voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna eða um 26 þúsund og voru þær rúm 23 prósent af öllum brottförum. Bandaríkjamenn hafa verið fjölmennastir í maímánuði um árabil og voru ríflega helmingur brottfara árið 2021, um fjórðungur brottfara árið 2019 og tæplega þriðjungur árið 2018.

Bretar voru í öðru sæti með um 9.500 brottfarir talsins eða 8,5 prósent allra brottfara og í þriðja sæti voru Þjóðverjar með rúm 7 prósent.

Enn langt í land

Frá áramótum hafa um 459 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi en á sama tíma í fyrra voru brottfarir þeirra um 32 þúsund talsins. Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu er þó enn nokkuð langt í land að ná þeim fjölda brottfara sem var fyrir kórónuveirufaraldurinn en þegar mest var voru þær um 793 þúsund á tímabilinu frá janúar til maí árið 2018.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert