Gosinu gæti hafa lokið í morgunsárið

Rauður bjarmi var yfir eldstöðvunum í nótt en fjaraði út …
Rauður bjarmi var yfir eldstöðvunum í nótt en fjaraði út með morgninum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Engin virkni hefur verið sýnileg í eldgosinu í Meradölum frá því klukkan sex í morgun og er hugsanlegt að gosinu í gígunum sé lokið.

Þetta segir í tilkynningu eldfjallafræði- og náttúruvárhóps Háskóla Íslands á Facebook.

Þar segir að rauður bjarmi hafi verið yfir gosstöðvunum síðastliðna nótt. Framan af hafi bjarminn frá hraunlæknum verið sterkari, en þegar leið á nóttina hafi hann fjarað út.

Þéttur blágrár mökkur

Nyrðra gígopið hafi viðhaldið bjarma fram yfir klukkan fjögur um nótt og á 15 mínútna tímabili um fimmleytið hafi gígurinn þeytt upp klepraslettum sem náðu rétt upp fyrir gígrimana.

„Rétt fyrir sex steig þéttur blágrár mökkur upp úr gígnum og skömmu síðar datt óróinn alveg niður.“

Þá hefur engin virkni verið sýnileg í gígunum síðan þá og hugsanlegt að gosinu sé lokið.

Ef flæði hrauns frá hraunpollinum hefur stöðvast, þá er gosið yfirstaðið og lauk sennilega um kl 6 þennan ágæta sunnudagsmorgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert