Ekki besta lausnin að loka til frambúðar

Líklega verður lokað fyrir vinstri beygju inn á Reykjanesbrautina.
Líklega verður lokað fyrir vinstri beygju inn á Reykjanesbrautina. mbl.is/Brynjar Gauti

Gert er ráð fyrir að lokanir vegna framkvæmda á Bústaðavegi, þar sem vegurinn mætir Reykjanesbraut, verði í gildi til og með 28. ágúst.

„Við höfum verið að skoða útfærslur sem tryggja að Reykjanesbrautin sé í frjálsu flæði. Þannig er hugmyndin að þegar þú keyrir úr vestri, niður Bústaðaveg í átt að Reykjanesbrautinni, yrðiru að beygja til hægri, og kæmist þá ekki til vinstri fyrr en á næstu mislægu gatnamótum. Markmiðið er að gatnamótin stoppi ekki umferð,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. 

Hann bendir á að framkvæmdirnar séu alfarið á vegum Rykjavíkurborgar, þó þær séu unnar í samstarfi við Vegagerðina. 

Settu upp umferðarteljara vegna lokananna

Aðstæður fyrir hjáleiðir á framkvæmdatíma voru óhagstæðar og því var ákveðið að loka veginum þann 19. ágúst, en með því styttist verktíminn um nokkrar vikur auk þess sem öryggi starfsmanna jókst til muna. Þetta segir Kristján Árni Kristjánsson, hjá Vegagerðinni, í samtali við mbl.is. 

Í tengslum við lokanirnar voru settir upp umferðarteljarar til þess að meta áhrif þeirra víðs vegar í gatnakerfinu. Niðurstaða þeirrar greiningar mun liggja fyrir í byrjun september.

G. Pétur segir lokanirnar nú þegar hafa skapað vandamál í umferðinni á rampanum upp á Miklubraut á slaufugatnamótunum, sem og á mislægu gatnamótunum næstu þar sem farið sé inn á Réttarholtsveg af Bústaðavegi. 

Skoðuðu að loka alfarið

Á samfélagsmiðlum hefur borið talsvert á stuðningsyfirlýsingum borgara við lokanirnar, og jafnvel lagt til að þær verði til frambúðar. 

„Skiljanlega hefur þessi lokun jákvæð áhrif á umferðina á neðri hluta Bústaðavegar,“ segir Kristján.

Hann segir að sú sviðsmynd, að loka veginum alveg við gatnamótin, hafi verið rædd, en ekki talin fela í sér bestu lausnina.

„Umferðarhermanir hafa sýnt að með því að loka gatnamótunum alfarið muni leiðarval breytast og valda töfum og meira álagi á aðrar götur innan smáíbúðahverfisins,“ við Réttarholtsveg, Sogaveg og þar í grennd. 

Þá kæmi það einnig til með að valda talsverðum töfum á Reykjanesbraut og Miklubraut.

Áhugavert að sjá raunáhrifin

„Það verður svo áhugavert að sjá niðurstöður þeirrar greiningar sem Vegagerðin og Reykjavíkurborg hafa sett í gang varðandi raunáhrif þessara lokana á umferðarflæði.“

Aðrar útfærslur gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðavegar eru á teikniborðinu, að sögn Kritjáns, sem myndu bæta flæði umferðar á Reykjanesbraut.

„Niðurstöður umferðarhermana sýna að þær útfærslur myndu ekki valda meiri umferð á Bústaðavegi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert