„Bagalegt“ að skýrslunni hafi verið lekið

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

„Ég veit nú ekki hvað nefndinni finnst um það en formanninum finnst þetta mjög bagalegt,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í samtali við mbl.is um það að skýrslu Ríkisendurskoðunar hafi verið lekið í fjölmiðla í dag, tæpum sólarhring áður en hún átti að vera gerð opinber.

„Ríkisendurskoðandi er trúnaðarmaður Alþingis og það eru ákveðnar ástæður fyrir því að hann kynnir skýrslur sínar fyrst fyrir nefndinni. Þannig að þetta er óheppilegt.“

Gerð opinber á morgun

Skýrslan, sem beðið hefur verið frá því að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra óskaði eftir úttektinni í apríl sl. vegna gagnrýni sem söluferlið sætti, átti upphaflega að vera tilbúin í lok júní og hefur verið beðið lengi.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis mun taka skýrsluna fyrir á fundi sínum kl. 16 á morgun, mánudag. Verður hún í kjölfarið gerð opinber. Skýrslan er sögð 71 blaðsíða að lengd og svo virðist sem þrír fjölmiðlar hafi hana undir höndunum; Ríkisútvarpið, Kjarninn og Vísir.

Er þar sagt að í skýrslunni komi fram að töluverðir annmarkar hafi verið á sölunni.

Uppfært:

Mbl.is hafði í kvöld samband við Lárus Blöndal, stjórnarformann Bankasýslunnar, og Jón Gunnar Jónsson, forstjóra. Sögðust þeir ekki ætla að tjá sig um skýrsluna fyrr en hún verður gerð opinber og telja ekki við hæfi að gera það á þessum tímapunkti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert