Bjarni: „Algjörlega óraunhæft“ að elta verðið í 122

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að algjörlega óraunhæft hefði verið að reyna að elta verðið í síðara útboði ríkisins á bréfum í Íslandsbanka upp í 122 krónur á hlut. Það hefði einnig breytt samsetningu hluthafa og haft áhrif á önnur markmið útboðsins en að fá sem hæst verð. Þetta segir Bjarni í samtali við mbl.is, en skýrsla Ríkisendurskoðunar um útboðið var formlega birt í dag.

Í úttekt Ríkisendurskoðunar eru gerðar ýmsar athugasemdir við undirbúning og framkvæmd sölunnar og tekið fram að meginmarkmið og viðmið framkvæmdarinnar hafi verið á reiki. Þá hafi upplýsingagjöf og hugtakanotkun þegar þingnefndir voru upplýstar um málið ekki verið til þess fallin að draga upp skýra mynd af tilhögun söluferlisins.

„Ekki hægt að segja að skýrslan sé áfellisdómur

„Heilt yfir er ekki hægt að segja að skýrslan sé áfellisdómur yfir sölunni. Ég horfi á heildarsamhengið og sé ekki betur en að skýrslan staðfesti að við höfum gætt ágætlega að fjárhagslegum hagsmunum ríkisins,“ segir Bjarni, spurður um hvort þessi niðurstaða sé áfellisdómur yfir söluferlinu. Segir hann að skýrslan sé að mestu leyti í takt við það sem hann og ríkisstjórnin hafi átt von á og þegar komið inn á í vor. Segir hann að komið hafi í ljós ákveðnir ágallar á kynningu og undirbúningi sem menn hafi áttað sig á eftir útboðið. Því segir hann að niðurstaðan núna komi sér ekki mikið á óvart.

Hann segist jafnframt ánægður á heildina litið þegar horft sé til sölunnar á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. „Það sem stendur enn upp úr í mínum huga er að við tókum rétta ákvörðun um að skrá Íslandsbanka, fara í almenna útboðið og þetta útboð var að mögu leyti mjög vel heppnað þó að það megi koma eftir á og segja að eitt og annað hafi mátt betur fara,“ segir Bjarni.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er á nokkrum stöðum vísað til þess að Bankasýslan hafi ekki sinnt skyldum sínum og jafnvel látið að því liggja að ekki hafi verið farið að lögum varðandi að ná fram forgangsmarkmiði í samræmi við lög um Bankasýsluna um hagkvæmni eða hæsta verð.

Meðal annars er um að ræða þessi atriði úr niðurstöðukafla skýrslunnar:

„Það er niðurstaða Ríkisendurskoðunar að Bankasýslan hafi í aðdraganda söluferlisins ekki sinnt með fullnægjandi hætti hlutverki sínu skv. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 88/2009 um stofnunina að tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings.“

„Ríkisendurskoðun telur að Bankasýsla ríkisins hafi vanrækt að tryggja að vinna umsjónaraðila, söluráðgjafa og söluaðila væri samstillt og skilvirk.“

„Stofnunin tók þá ákvörðun, að ráði ráðgjafa sinna, að leggja til við ráðherra að eignarhluturinn skyldi seldur á lægra verði að því er virðist til að ná fram öðrum markmiðum en forgangsmarkmiði sínu og meginreglu laga nr. 155/2012 um hagkvæmni eða hæsta verð.“

Vanmat á orðsporsáhættu

Spurður hvort hann telji störf Bankasýslunnar hafa verið í samræmi við lög segir Bjarni að hver og einn verði að svara því fyrir sig. „Ekki er með nokkrum hætti hægt að halda því fram að við höfum ekki framkvæmt söluna í samræmi við fyrirmæli í lögum. Það koma hins vegar ábendingar um að Bankasýslan, ráðuneytið og eftir atvikum þingið hafi vanmetið orðsporsáhættu í þessu ferli,“ segir Bjarni og bætir við að ekki megi gleyma því að meginmarkmiðin hafi verið að skrá og selja bankann, fá gott verð, en ekki síður að fá breitt og fjölbreytt eignarhald. „Þessum markmiðum höfum við öllum verið að ná mjög sterkt og mér finnst það vera aðalmarkmiðið.“

Segir endanlega ábyrgð á Bankasýslunni ekki liggja hjá sér

Bjarni segist aðspurður ekki geta borið endanlega ábyrgð á Bankasýslunni, enda hafi hugmyndin verið að stofnunin væri í armslengdarfjarlægð frá ráðuneytinu. „Lögin um Bankasýsluna eru sett til þess að koma allri þessari ákvarðanatöku í armslengd frá stjórnmálunum. Í lögin er t.d. skrifað út að ef ég vilji hafa einhver áhrif á með hvaða hætti Bankasýslan starfi, með tilmælum eða öðrum hætti, þá beri mér að gera þinginu grein fyrir því. Bankasýslan nýtur mikils sjálfstæðis með sjálfstæða stjórn. Get ekki tekið undir það að ég eigi að bera endanlega ábyrgð á Bankasýslunni þegar lög eru smíðuð sérstaklega til að fjarlægja ákvarðanir sem þar eru teknar frá mínu pólitíska áhrifasviði.“

Í athugasemdum ráðuneytisins til Ríkisendurskoðunar er jafnframt hnýtt í tvær þingnefndir sem höfðu málið til skoðunar og bent á að í störf­um þeirra fel­ist eft­ir­lits­hlut­verk og að „í um­sögn­um þing­nefnda nú voru ekki mikl­ar efn­is­leg­ar at­huga­semd­ir við til­boðsfyr­ir­komu­lagið sem slíkt eða leiðbein­ing­ar til ráðherra um sölumeðferðina“.

Spurður út í þetta atriði og hvort hann telji þingnefndirnar hafa brugðist segir Bjarni að hann vilji ekki ganga svo langt. „Ég vil nú ekki meina að þingnefndirnar hafi brugðist, en ég tek eftir að ríkisendurskoðandi telur að þar hafi menn ekki gert sér grein fyrir orðsporsáhættunni. Og ef við lesum nefndarálitin sem koma frá þinginu þá er lögð áhersla þar á erlent eignarhald. Á fundunum sem haldnir voru með þinginu var það alveg skýrt að það mætti vænta þess að eitthvert frávik væri frá síðasta sölugengi,“ segir Bjarni.

117 krónur, 118 krónur eða 122 krónur á hlut

Í skýrslunni er bent á að þar sem um 450 milljónir hluta hafi verið að ræða í þessu útboði hafi ein króna til eða frá í gengi orsakað breytingu í heildarsöluverði upp á 450 milljónir. Síðasta viðskiptaverð með bréf Íslandsbanka fyrir útboðið var 122 krónur á hlut, en tilboð bárust fyrir 120% af eignarhluta á því verði, en 282% á genginu 117 krónur. Einnig er bent á að tilboð á genginu 118 krónur hafi numið um tvöfaldri stærð selda hlutans.

Spurður út í þetta atriði og hvort ríkið hafi þarna orðið af 2,25 milljörðum segir Bjarni að hann telji þessa umræðu í raun snúast um hvort það hefði átt að selja á genginu 117 eða 118 krónur. Það þurfi alltaf að gera ráð fyrir ákveðinni umframeftirspurn í útboðum sem þessum og vísar hann í dæmi frá Írlandi þar sem margföld eftirspurn hafi verið varðandi sölu ríkisins á hlut í banka þar. „Það er ekkert vit að elta verð þar sem menn hafa rétt svo fengið fyrir því sem þeir eru að selja,“ segir hann. Það var algjörlega óraunhæft að við værum að elta verðið svo langt [upp í 122 krónur á hlut]. Þá varstu kominn með svo lítið umfram það magn sem við vorum að selja og þá var verið fórna öðrum markmiðum sem við vorum með skýr allan tímann að væru eftirsóknarverð í okkar huga.“

Ítrekar Bjarni að samkvæmt tillögu Bankasýslunnar hafi gengið 117 verið líklegast til að tryggja það markmið og því hafi hann ekki talið ástæðu til að skoða það betur.

Þessar forsendur eru hins vegar gagnrýndar nokkuð í skýrslunni og sagt að Bankasýslan hafi ekki verið meðvituð um hver heildareftirspurn fjárfesta hafi verið þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin. Þar með hafi Bankasýslan ekki haft fullnægjandi upplýsingar um raunverulegt umfang eftirspurnar fjárfesta.

Spurður um þessar forsendur segir Bjarni að ekki hefði verið hægt að gera breytingar á verðinu án þess að hafa áhrif á samsetningu hluthafanna. „Ef þú breytir genginu breytist samsetning hluthafanna. Þá ítrekar hann að breiður og fjölbreyttur eigendahópur hafi verið meðal markmiða útboðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert