„Hvað ert þú að rífast, þú ert á listamannslaunum?“

Hallgrímur Helgason flytur erindi sitt við góðan orðstír í sendiherrabústaðnum …
Hallgrímur Helgason flytur erindi sitt við góðan orðstír í sendiherrabústaðnum í Ósló í gær. Ljósmynd/Freydís fotograf

„Þessi dagur hefur vissulega mikla merkingu fyrir okkur. Við fengum hingað Hallgrím Helgason rithöfund sem kynnti fyrir okkur það sem hann er að skrifa, hann tengir saman íslenska og norska sögu,“ segir Högni Kristjánsson, sendiherra Íslands í Noregi, um dag íslenskrar tungu sem haldinn var hátíðlegur í sendiherrabústaðnum á Bygdøy í Ósló í gær.

„Hallgrímur hélt mjög skemmtilegt erindi um þetta, tengdi til dæmis saman síldarhagsmuni Norðmanna og Íslendinga í gamla daga sem auðvitað hafa oft ratað í bókmenntirnar og eiga þar með tengsl við íslenska tungu,“ heldur sendiherrann áfram.

Hanne Kristin Jakhelln, heiðursræðismaður Íslands í Bodø, ásamt Högna sendiherra.
Hanne Kristin Jakhelln, heiðursræðismaður Íslands í Bodø, ásamt Högna sendiherra. Ljósmynd/Freydís fotograf

Dagskráin í gær var tvískipt, Hallgrímur hélt sitt erindi en auk þess kynntu þrír norskir þýðendur, sem þýða af norsku yfir á íslensku, verk sín. „Hér eru margar bækur sem bíða þess að verða þýddar og gaman að segja frá því að á meðan Hallgrímur var hér staddur fékk hann boð frá sínum útgefanda um að búið væri að finna norskan þýðanda fyrir hann,“ segir Högni frá.

Áhugi Norðmanna á Íslandi mikill

Hann tók við sendiherrastöðunni 1. ágúst í sumar af Ingibjörgu Davíðsdóttur og líst vel á. „Þetta er mjög spennandi, ég var kominn með dálítið net af Íslendingum hérna gegnum það sem ég hef verið að starfa við um árin svo maður kemur ekki að tómum kofunum hérna. Það er mjög gaman að fara inn í menningarsamstarf þjóðanna, eins og þetta sem við vorum með í dag og svo vorum við með myndlistarviku fyrir stuttu,“ segir hann.

Högni kveður áhugavert að upplifa áhuga Norðmanna á Íslandi, vel hafi verið mætt á samkomuna vegna dags íslenskrar tungu. „Fólk er með margar hugmyndir um hvernig hægt er að efla menningarsamstarfið milli Íslands og Noregs og gera meira úr tengslum okkar. Maður er kominn með fullt af nýjum hugmyndum til að vinna með,“ segir nýr sendiherra Íslands í Noregi.

Veitingar Friðriks Sigurðssonar voru að sjálfsögðu hinar þjóðlegustu í tilefni …
Veitingar Friðriks Sigurðssonar voru að sjálfsögðu hinar þjóðlegustu í tilefni dags íslenskrar tungu, hvað er þjóðlegt annars ef ekki hákarl og brennivín? Ljósmynd/Freydís fotograf

Næstur á mælendaskrá er Hallgrímur Helgason rithöfundur, staddur í Ósló í tilefni dags íslenskrar tungu.

„Ég var að spjalla um bókina Sextíu kíló af sólskini sem kemur út í Noregi líklega 2024. Nú er búið að ganga frá samningum við Aschehoug-forlagið um það,“ segir Hallgrímur af sókn sinni á norskan markað.

Söludeild Forlagsins á Íslandi segir hann í stöðugri vinnu við að koma sínum höfundum á framfæri erlendis og hafi samningurinn við Aschehoug sprottið af því starfi.

Skrýtin og skemmtileg orð

„Þetta er hátíðisdagur, ég sá að Bragi Valdimar var að fá Jónasinn heima, hann hefur haldið á lofti þessari skringilegu íslensku sem liggur á bak við okkar daglega tungumál,“ svarar Hallgrímur, spurður út í merkingu dags íslenskrar tungu í hans huga.

Fáir íslenskir rithöfundar hafa komið sér upp öflugra vörumerki en …
Fáir íslenskir rithöfundar hafa komið sér upp öflugra vörumerki en nauðasköllóttu höfði Hallgríms Helgasonar sem hér fjallar um menningartengsl Íslands og Noregs. Ljósmynd/Freydís fotograf

„Bragi hefur verið að draga fram orð sem eru skrýtin og skemmtileg og svo er þessi dagur náttúrulega helgaður Jónasi Hallgrímssyni og þá koma upp í hugann öll þau orð sem hann bjó til sem eru ótrúlega mörg, svo sem rafmagn, sjónauki, fluggáfaður og fleira. Nú er komin út sérstök bók heima um þau nýyrði sem Jónas bjó til og eru enn þá notuð í dag, íslenskan er skapandi tungumál og skemmtilegt,“ segir Hallgrímur.

Hann kveðst ánægður með samkomuna í sendiherrabústaðnum. „Það er svo góður andi í þessu gamla húsi, ég kom þarna aðeins áður en þetta byrjaði, þar var kokkurinn að störfum og verið að undirbúa. Þetta var bara eins og á stóru sveitaheimili, þar er alltaf góður andi,“ segir Hallgrímur, en téður kokkur er enginn annar en Friðrik Sigurðsson, vert í utanríkisráðuneytinu.

Friðrik Sigurðsson, vert í utanríkisráðuneytinu, er kveðinn hafa átt stórleik …
Friðrik Sigurðsson, vert í utanríkisráðuneytinu, er kveðinn hafa átt stórleik með veisluborði sínu í gær. Hér stendur hann ásamt sendiherrahjónunum, Ásgerði Magnúsdóttur og Högna Kristjánssyni. Ljósmynd/Freydís fotograf

Hvernig gengur hjá Hallgrími, nær hann að lifa alfarið af skrifum sínum?

„Þetta hefur einhvern veginn slumpast frá 1983 en í seinni tíð hef ég verið á listamannslaunum. Þetta er alltaf hark samt, þótt ég selji vel heima eru þetta kannski fjórar milljónir sem maður fær fyrir þriggja ára vinnu og það náttúrulega hrekkur ekki alveg. Þetta eru engin stórlaun,“ segir höfundurinn.

Úr sveitaþorpi í menningarborg

Freistandi er að spyrja Hallgrím, verandi með hann á línunni, hvernig hann telji ríkisvaldið standa að afkomu listamanna þjóðarinnar.

„Ja, það er náttúrulega kallað heimtufrekja ef maður biður um hærri listamannslaun, Lilja [Dögg Alfreðsdóttir] hækkaði þau nú á þessu ári, þau eru núna komin upp í 470 þúsund og það er svona skárra, en þetta eru peningar sem er vel varið að mínu mati, þetta er góð pólitík og Norðmenn hafa nú sýnt það öllum þjóðum fremur hvað fjárfesting í listum borgar sig,“ segir Hallgrímur.

Fjöldi gesta sótti samkomuna í sendiherrabústaðnum og hlýddi á erindi …
Fjöldi gesta sótti samkomuna í sendiherrabústaðnum og hlýddi á erindi ræðumanna. Ljósmynd/Freydís fotograf

Nefnir hann þar sem dæmi hvernig Ósló hafi verið að þróast úr sveitaþorpi í alþjóðlega menningarborg sem fólk fýsi að heimsækja, glæsileg söfn hafi risið á síðustu árum auk þess sem norskum bókmenntum sé gert mjög hátt undir höfði og þýdd á fjölda tungumála.

„Þetta er bara ákvörðun sem Norðmenn tóku 2010 og við svo sem fylgjum þessu svona í áttina, eltum þetta aðeins, en það mætti setja meiri pening í þetta ég segi það ekki, meiri styrki til að þýða bækur og meiri styrki fyrir skapandi fólk. Til langs tíma skilar það sér, menningin er okkar helsta verðmæti og ef við lítum til baka til tíma Jónasar var þjóðin nýstigin út úr móðuharðindinum, við vorum nokkrir tugir þúsunda og Ísland var á lægsta punkti í sinni sögu. Svo kom kynslóð sem vildi sjálfstæði og vildi hefja gömlu bókmenntirnar til vegs og virðingar aftur. Sjálfstæðið var svo nátengt bókmenntunum,“ segir Hallgrímur.

Erum bara ríkisstarfsmenn

Hann kveður Íslendinga merkilega tengda sínum bókmenntum, sú tenging sé nánast einstök. „En ef maður segir eitthvað umdeilt eða pólitískt á netinu til dæmis fær maður alltaf yfir sig frá fjölda fólks „Hvað ert þú að rífast, þú ert á listamannslaunum?“ segir hann og hlær við.

Hallgrímur Helgason stillir sér upp með Högna og Ásgerði.
Hallgrímur Helgason stillir sér upp með Högna og Ásgerði. Ljósmynd/Freydís fotograf


„Fólk ætti frekar að horfa á þetta bara eins og við séum ríkisstarfsmenn sem vinna við að skrifa bækur, Brynjar Níelsson og félagar eru bara ríkisstarfsmenn líka, þeir eru að sinna einhverjum málum í dómsmálaráðuneytinu, aðrir eru kennarar eða sálfræðingar, þetta eru allt ríkisstarfsmenn, við eigum öll okkar hlutverk og það er erfitt að fá listamannslaun og það er erfitt að skrifa bækur. Eins og Þórbergur Þórðarson orðaði það svo skemmtilega þá tekur það meiri orku og hugsun að skrifa eina skáldsögu en að reka heila togaraútgerð í þrjú ár,“ segir Hallgrímur Helgason að lokum, gestkomandi í Ósló á degi íslenskrar tungu.

Vert er að geta þess að Freydís Heiðarsdóttir ljósmyndari leyfði mbl.is að njóta síns næma auga fyrir góðri ljósmyndun eins og sjá má af meðfylgjandi myndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert