Vilja sameina Vinnumálastofnun og Fjölmenningarsetur

Hjá Vinnumálastofnun eru um það bil 190 fastráðnir starfsmenn.
Hjá Vinnumálastofnun eru um það bil 190 fastráðnir starfsmenn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fyrirhugað er að sameina Vinnumálastofnun og Fjölmenningarsetur þannig að öll þjónusta sem snýr að innflytjendum, flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd verði á hendi einnar stofnunar hér á landi. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. 

Gert er ráð fyrir að hin sameinaða stofnun taki til starfa á næsta ári og fái nýtt heiti.

Markmið sameiningarinnar er að veita á einum stað heildræna og samþætta þjónustu fyrir innflytjendur, flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Með sameiningunni er meðal annars horft til þess árangurs sem móttökumiðstöð fyrir flóttafólk hefur skilað en þar hefur öll þjónusta fyrir þau sem eru nýkomin til landsins verið sameinuð á einn stað,“ segir í tilkynningunni. 

Fastráðnu starfsfólki boðin áfram vinna

Hjá Vinnumálastofnun eru nú um það bil 190 fastráðnir starfsmenn. Hjá Fjölmenningarsetri eru tæplega tíu stöðugildi fastráðinna starfsmanna. Aðalskrifstofa stofnunarinnar er á Ísafirði, en þar eru tvö stöðugildi. Sömuleiðis eru tveir starfsmenn á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Ísafirði. Gert er ráð fyrir að stöðugildum á Ísafirði verði fjölgað í sameinaðri stofnun, með tilkomu nýrra verkefna.

Jafnframt er gert ráð fyrir að fastráðnu starfsfólki beggja stofnana verði boðin vinna hjá sameinaðri stofnun.

Fyrirhugað er að félags- og vinnumarkaðsráðherra muni á komandi vorþingi leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um sameinaða stofnun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert