Konu með börn vísað út vegna vandræða með Klappið

Einn strætóbílstjóri greip til þess ráðs að halda fyrir skannann …
Einn strætóbílstjóri greip til þess ráðs að halda fyrir skannann og hleypa fólki inn. Mynd úr safni. mbl.is/Hari

Strætóbílstjóri er sagður hafa vísað konu með tvö börn út úr vagni á Lækjartorgi í Reykjavík, þegar hún átti í erfiðleikum með að borga með Klappinu, greiðsluappi Strætó. Sahsa, farþegi í vagninum, lýsir reynslunni í samtali við mbl.is. 

„Strætisvagnar taka ekki lengur reiðufé svo konan þurfti að niðurhala Klappinu. Hún sagðist geta gert það hér og nú. Bílstjórinn neitaði og vísaði henni út,“ segir hann.

„Eftir að bílstjórinn hafði hrópað á konuna bauðst ég til þess að borga fyrir hana með appinu í mínum síma. Bílstjórinn neitaði því líka,“ segir hann. Konan var af erlendu bergi brotin, með ungt barn og barnavagn, að taka leið 1 úr miðbænum síðdegis á föstudaginn.

Haldið fyrir skannann og öllum hleypt inn

Sahsa telur fyrirkomulagið einkennast af tillitsleysi við fólk sem reiðir sig á Strætó og færi minnihlutahópa jafnvel enn lengra á jaðarinn. „Þetta er ónothæft og einkennist af skilningsleysi í garð notenda,“ segir hann og bætir við að staðan hafi versnað eftir að hætt hafi verið að taka við reiðufé.

„Það skrýtna er sá strætóbílstjóri sem keyrði mig til Reykjavíkur [fyrr um daginn] hélt  fyrir skannann og sagði að kerfið væri svo hægfara að það seinkaði vagninum. Svo öllum var bara hleypt inn. Þetta eru svo fáránlegar aðstæður,“ segir Sahsa.

Vandræði Klappsins eru margumtöluð og var ákveðið nýverið að skipta út öllum skönnum þess vegna kerfisuppfærslu, sem er Strætó að kostnaðarlausu.

Kannast ekki við málið

Forstjóri Strætó, Jóhannes Rúnarsson, segir í samtali við mbl.is að hann kannist ekki við þetta tiltekna mál. Allir strætisvagnar taki við reiðufé og hafi alltaf gert það.

„Við svo sem höfum heyrt um atvik þar sem fólk er ekki með réttan greiðslumáta og ætlar í vagninn en hefur ekki fengið.“

Tapar Strætó ekki á því að appið virki svo illa að bílstjórar haldi fyrir skannann og hleypi fólki inn?

„Við erum með 30.000 innskannanir á dag í kerfinu. Svo þetta er ekki að valda neinum vandræðum. Það er hlutverk vagnstjóra að passa upp á að fólk skanni sig inn. Eða þá að láta okkur vita um eitthvað sem megi betur fara.“

Farþega var einnig neitað um að greiða fyrir annan farþega vegna vandræða með greiðslumáta í fyrradag, en umfjöllun mbl.is um málið vakti athygli í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert