Strætóbílstjóri á leið 55, til Keflavíkur frá Reykjavík, hótaði hælisleitendum þegar strætókort þeirra virkaði ekki og neitaði öðrum farþega að greiða fyrir þá. Hælisleitendurnir, sem voru feðgar, gáfust að lokum upp og yfirgáfu vagninn þar sem hann var, við Kringlumýrarbraut.
Strætó bs. er kunnugt um málið að sögn framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Jóhannesar Rúnarssonar, og hefur samlagið kallað eftir skýringum hjá verktaka sem ekur leið 55.
Joanna Dominicizak varð vitni að atvikinu í strætó um hálfsjöleytið í gær. Segir hún í samtali við mbl.is brýnt að mál sem þessi séu skoðuð nánar og litin alvarlegum augum.
„Á stoppistöðinni við Kringlumýrarbraut kemur inn flóttamaður með strákinn sinn ca. 7 ára og notar kort sem Reykjanesbær útvegaði honum,“ segir í færslu sem Joönnu á Facebook sem birt er með góðfúslegu leyfi hennar.
„Kortið virkar ekki. Bílstjórinn segir honum að hann þurfi að borga. Maðurinn vill nota kortið. Við erum þarna í nokkra stund á meðan öskrar bílstjórinn á feðgana, þeir hringja í einhverja konu sem bílstjórinn talar við, segir að þetta „flóttalið“ vilji aldrei borga, komi með ónýt kort og að hann sé ekki góðgerðarstarfsemi, vinni vinnuna sína og vilji komast loksins í matinn.“
Því næst hafi bílstjórinn hótað feðgunum, sagt þeim að hann búi í Njarðvík og muni finna þá.
„Í þessum orðaskiptum hótar bílstjórinn feðgunum og segir við föðurinn „I live in Njarðvík. I'll find you“. Þegar ég býðst til að borga fyrir feðgana NEITAR hann mér um það þar sem hann var búinn að hringja í lögregluna og segir að hún sé á leiðinni. Ég bið hann um að hringja í hana og segja að málið sé leyst þar sem ég borga fyrir þá en hann vill ekki gera það. Þegar ég segi að ég geti hringt svo hann þurfi það ekki vill hann samt ekki leyfa mér að borga!!!“.
Þegar svo var komið gáfust feðgarnir upp og héldu sína leið.
„Maðurinn gefst upp, tekur strákinn sinn og þeir fara út. Hann horfir upp í himininn nærri gráti en samt með von í augunum til að hlífa stráknum fyrir niðurlægingunni og segir „He watches us“. Við leggjum af stað og bílstjórinn hringir stoltur í lögregluna og segir að hann þurfi enga aðstoð lengur. Svona bílstjórar eiga ekki að keyra strætó. Ég vona að Strætó bs. taki málið alvarlega,“ segir í niðurlagi færslunnar.
Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir í samtali við mbl.is að þarna hafi verið um að ræða landsbyggðarstrætó, sem ekki er hjá Strætó bs. Þó hafi samlagið kallað eftir skýringum hjá þeim verktaka sem ekur þessa leið fyrir Vegagerðina.
„Við lítum öll svona tilvik alvarlegum augum, hvort sem það er hjá okkur eða annars staðar. Þetta er stór notendahópur og við viljum að þeim líði vel í okkar kerfum,“ segir hann. Aðspurður segir hann verktakans að ákvarða framtíð bílstjórans hjá Strætó.