Ljósastaurar munu lýsa lengur í borginni

Lýsing í borginni stjórnast af sérstökum ljósnema. Því slokknar á …
Lýsing í borginni stjórnast af sérstökum ljósnema. Því slokknar á ljósastaurum þegar ákveðin birtuskilyrði eru fyrir hendi. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Reykjavíkurborg hyggst bregðast við ábendingum borgarbúa um gatnalýsingu og lengja þann tíma sem að kveikt er á ljósastaurum. 

Á hverju hausti fjölgar ábendingum sem berast borginni vegna gatnalýsingar þar sem lítið viðhald er á ljósastaurum yfir sumartímann. Ábendingunum fækkar þó iðulega á nýju ári þegar að búið er að bregðast við þeim. 

„Það er ekkert óeðlilegt að ábendingarnar séu mestar á haustin þegar byrjað er að dimma en yfir sumarið er ekki mikið viðhald því þá er lítið svo lítið kveikt á gatnalýsingunni,“ segir Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu borgarlandsins hjá Reykjavíkurborg.

Hann bætir þó við að snjóleysi og rigning í nóvember gætu hafa stuðlað að því að borgarbúar upplifðu að lýsingin í haust væri verri en áður. 

„Það sem er öðruvísi í dag er að nóvembermánuður var frekar blautur. Þegar svoleiðis er þá er bara mjög svart. Það verður rosalega mikið myrkur þó svo að lýsingin er í lagi. Það endurkastast ekkert af yfirborðinu, svartir hlutir drekka alla birtu í sig. Fólk upplifir sömu lýsinguna dimmari í þessum aðstæðum, það er ekkert óeðlilegt,“ segir Hjalti en tekur þó fram að ábendingarnar í haust hafi þó ekki verið fleiri en í venjulegu árferði. 

Kvikna og slokkna við 20 lux

Ráðist var breytingar á gatnalýsingakerfinu í borginni vegna hagræðingaraðgerða í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Síðan þá hefur lýsingin í borginni miðað við náttúrulega birtu úti þar sem kviknar og slokknar á ljósastaurum þegar að birtan nær ákveðnu marki.

„Birta er mæld í einingunni lux. Við höfum kveikt við 20 lux og slökkt við 20 lux á morgnanna – fyrir utan gönguleiðir barna, lýsingin þar hefur lifað fram yfir skólatímann.“

Breytingar eru þó í vændum á þessu kerfi sem fela í sér lengri lýsingartíma, að sögn Hjalta.

„Það hafa komið ábendingar til okkar um það og við ætlum að bregðast við því. Það hafa ekkert komið óskir um það fyrr en núna því haustið er búið að vera svart, blautt og enginn snjór og ekkert endurkast.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka