Borgin hafi ekki burði til að greiða stóran hluta

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við mbl.is að flokkurinn styðji eindregið byggingu nýrrar þjóðarhallar í Laugardalnum en hún óttist að borgin hafi hins vegar ekki burði til þess að taka á sig stóran hluta kostnaðarins.

Á blaðamannafundi í gær var staða verkefnisins kynnt og kom þar fram að heild­ar­kostnaður verður í kring­um 15 millj­arðar króna.

Borgin rekin með 15,3 milljarða halla

„Það er bagalegt að fylgjast með því hvernig farið hefur fyrir fjármálum borgarinnar á síðustu árum. Niðurstaðan er sú að borgin var á síðasta ári rekin með 15,3 milljarða halla. Vegna þess hvernig borgin hefur verið rekin þá hefur maður auðvitað áhyggjur af því að hún sé ekki í stöðu til þess að standa undir sínum þætti í þessari uppbyggingu. Það er auðvitað ömurlegt að horfa upp á.“

Hildur segir því skipta miklu máli að sjá hvernig samningum á milli ríkis og borgar vindur fram er kemur að kostnaðarskiptingu.

„Við þurfum að meta niðurstöðuna þegar við fáum hana fyrir framan okkur,“ segir hún og nefnir að minnihlutinn fái ekki aðkomu að viðræðunum.

Sitja ekki á fjármunum heldur skuldum

„Það skiptir líka máli að okkar mati að málefni íþróttafélaganna í Laugardalnum verði leyst,“ segir Hildur og á þar við Þrótt og Ármann.

„Þau hafa svolítið verið flækt saman við málefni þjóðarhallar. Þessi félög búa við gríðarlegt aðstöðuleysi. Þannig að það þarf að leysa þau mál með félögunum samhliða.“

Í ljósi íþróttafélaganna í Laugardalnum, myndirðu telja sanngjarnt að borgin tæki stóran þátt í kostnaðinum? 

„Í eðlilegu árferði, þar sem við værum með borg í traustum rekstri, þá auðvitað myndi maður sjá fyrir sér myndarlega aðkomu borgarinnar í kostnaði við uppbyggingu þjóðarhallar. Ekki síst vegna þess að okkur þykir mikilvægt að þjóðarhöllin rísi hér í Reykjavík. En miðað við núverandi stöðu í rekstri borgarinnar, þar sem við sitjum ekki á digrum sjóðum heldur skuldum fyrst og fremst, þá sér maður ekki alveg hvernig aðkoma borgarinnar ætti að vera að fjármögnun uppbyggingarinnar. Þessi staða er auðvitað á ábyrgð borgarstjóra og er mjög alvarleg,“ segir Hildur og bætir við að málið sé því vandasamt.

Uppbygging gæti tafist 

Fram­kvæmd­ir eiga að hefjast á næsta ári og stefnt er að verklok­um árið 2025.

Telur þú að áætlunin sé heldur bjartsýn í ljósi þess að það sé ekki búið að ákveða kostnaðarskiptingu?

Ég get ekki séð að borgin hafi burði til þess að bera stóran hluta kostnaðar við þessa höll, að minnsta kosti ekki næstu árin, og ef það verður niðurstaðan þá held ég því miður – vegna þess hvernig meirihlutinn hefur haldið um fjármál borgarinnar – að uppbygging þjóðarhallar geti tafist töluvert.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert