Misbauð að horfa á Sólveigu fagna

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. mbl.is/Hákon

„Þessi niðurstaða hlýtur að vera mikið reiðarslag fyrir forystu Eflingar, þriðji hver greiðir atkvæði gegn verkfallsboðun og aðeins 189 af 287 taka afstöðu. 124 styðja forystu Eflingar í þessari ófriðarför. Ekki síst í ljósi þess yfirgengilega þrýstings sem þetta fólk var beitt af hálfu forystu Eflingar, sem það hefur sjálft skýrt frá.“

Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is, eftir að ljóst var að hópur starfsmanna sem starfar undir kjarasamningi Eflingar og SA á Íslandshótelum samþykkti að leggja niður störf á þriðjudaginn í næstu viku.

„Blað er brotið með þessari nálgun Sólveigar Önnu Jónsdóttur að kjósa alltaf ófriðinn þótt friður sé í boði og njóti fjöldafylgis.“

0,6% kosið burt afturvirkni fyrir 21 þúsund

„Við teljum þessa aðferð, að ráðast gegn starfsemi eins fyrirtækis, fullkomlega ómálefnalega. Hún gengur að okkar mati í berhögg við hugsunina á bak við beitingu verkfalla í vinnudeilum. Sem er samstaðan. Verkfallsrétturinn er í eðli sínu samstöðuvopn og það er ekkert annað en misnotkun á því vopni að hópur 124 starfsmanna, af 21 þúsund manna hópi innan stéttarfélagsins, taki ákvörðun sem meirihluti félagsmanna kann að vera algerlega ósammála. Nú hafa 0,6% félagsmanna kosið burt afturvirkni kjarasamningsins fyrir hin 21 þúsundin.“

Halldór segir að ef fátt bendi til þess að annað gildi um þorra Eflingarfélaga en annarra félaga innan Starfsgreinasambandsins sem kusu afturvirkar hækkanir og stuttan samning, „þó að þessi tiltekni hópur, sem var handvalinn af forystu Eflingar, hafi kosið með vinnustöðvun. Þetta er bara svo yfirgengilegt eins og margt annað sem frá forystu Eflingar kemur.“

Sólveig Anna ætlaði aldrei að semja 

„Þetta eru í staðinn um 124 manns sem eru að taka ákvörðun sem hefur áhrif á 21 þúsund Eflingarfélaga og á samfélagið allt. Á sama tíma berst forystan með kjafti og klóm gegn því að Eflingarfélagar fái að kjósa um samninginn sem er á borðinu. Mitt mat er að Sólveig Anna ætlaði sér aldrei að semja og nálgaðist samningagerðina aldrei með það í huga að ná sátt. Skrumskæling þeirra á vinnulöggjöfinni og framkoma staðfesta að þau hirða hvorki um lög, starfsheiður starfsfólks ríkissáttasemjara né almenna sómakennd – og mér misbauð að horfa á Sólveigu Önnu fagna verkfallsboðun í beinni útsendingu RÚV.“

„Að því sögðu að þá erum við fyrst og fremst með miklar áhyggjur af því tjóni sem af þessari óvissuför muni hljótast, bæði fyrir ferðaþjónustuna og atvinnulífið en ekki síður félagsfólk Eflingar, sem að miklum meirihluta hefur ekkert haft um þessa verkfallsboðun að segja. Við spyrjum að leikslokum. Það hefur reynst okkur vel.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert