Meint verkfallsbrot við Fosshótel

Lögreglumenn á vettvangi.
Lögreglumenn á vettvangi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögregla er á vettvangi við Fosshótel í Bríetartúni þar sem trúnaðarmaður á vegum Eflingar, Örvar Þór Guðmundsson, tjáir mbl.is að verkfallsbrot hafi átt sér stað. Segir hann verktökum hafa verið hleypt inn á hótelið til að ganga í störf Eflingarfólks og verkfallsverðir læstir úti en hópur þeirra sést standa við dyr hótelsins á myndum sem mbl.is hafa borist.

Þrjár lögreglubifreiðar komu fljótlega á vettvang og voru dyr hótelsins opnaðar með lögregluvaldi við mikil fagnaðarlæti Eflingarfólks.

Uppfært kl. 15:22:

„Það var trúnaðarmannanámskeið í gangi hjá Eflingu þegar Sólveig Anna [Jónsdóttir] kom og lét okkur vita að stórfelld verkfallsbrot væru í gangi á Fosshóteli,“ sagði Örvar frá nú fyrir skömmu og mátti heyra mikið háreysti og læti í kringum hann þar sem hann stóð fyrir utan hótelið.

„Nú stendur Eflingarfólk hér fyrir utan og fær ekki aðgang að hótelinu en tveir lögreglubílar voru að koma hér að,“ sagði trúnaðarmaðurinn enn fremur og bætti því við skömmu síðar að þriðja lögreglubifreiðin hefði bæst í hópinn.

Fóru leikar svo, eftir að dyr hótelsins voru opnaðar, að fimm verkfallsvörðum var hleypt inn til að sinna þar hlutverki sínu en aðrir fulltrúar Eflingar yfirgáfu svæðið. „Hótelið vildi bara hleypa tveimur inn en við eigum rétt á að vera með fimm verði á staðnum,“ segir Örvar að lokum.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var á staðnum.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var á staðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Verkfallsverðir Eflingar úti fyrir læstum dyrum hótelsins.
Verkfallsverðir Eflingar úti fyrir læstum dyrum hótelsins. Ljósmynd/Örvar Þór Guðmundsson
Lögregla kemur á vettvang.
Lögregla kemur á vettvang. Ljósmynd/Örvar Þór Guðmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert