Viðurkenni Holodomor sem hópmorð

Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og Volodymyr Zelenskyy, forseti Úkraínu.
Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og Volodymyr Zelenskyy, forseti Úkraínu. Samsett mynd

Utanríkismálanefnd Alþingis ræddi þingsályktunartillögu um að Ísland lýsi því yfir að hungursneyðin í Úkraínu (Holodomor), sem stóð yfir frá 1932 til 1933 og dró milljónir Úkraínumanna til dauða, hafi verið hópmorð. Ýmsir sagnfræðingar hafa leitt líkur að því hungursneyðin hafi verið afleiðing af gjörðum alræðisstjórnar Stalíns, en Rússar hafa alla tíð neitað því að um hópmorð hafi verið að ræða.

„Þetta er hluti af sögunni í þessum heimshluta og kemur líka inn í nútímann. Viðurkenning á hópmorði á þessum tíma hefur ekki síður gildi inn í nútímann,“ segir Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Selenskí lagði áherslu á málið

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, lagði áherslu á málið við Bjarna, sem sótti stjórnvöld í Úkraínu heim í síðustu viku en á þriðja tug þjóða hafa þegar brugðist við ákallinu.

„Þetta mál er í meðförum á mörgum þjóðþingum þessa dagana og við erum að reyna að láta þetta ganga eins hratt og við getum í gegnum okkar þing. Það var ánægjulegt að geta sagt frá því að búið væri að mæla fyrir málinu á Alþingi Íslendinga,“ segir Bjarni.

Fullur stuðningur frá utanríkisráðuneyti

Utanríkisráðuneytið var fengið til að ræða málið og Bjarni segir fullan stuðning hafa fengist við tillögunni þaðan.

„Við munum afgreiða málið eins hratt og hægt er. Ég reikna með nefndaráliti á föstudag og svo fer málið inn í þing við fyrsta tækifæri. Ég held að það sé þverpólitísk sátt að láta málið fá hraðferð,“ segir Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert