Sunna fékk Blaðamannaverðlaun ársins

Lillý Valgeður Pétursdóttir, Þorsteinn J.Vilhjálmsson, Sunna Valgerðardóttir og Helgi Seljan …
Lillý Valgeður Pétursdóttir, Þorsteinn J.Vilhjálmsson, Sunna Valgerðardóttir og Helgi Seljan voru heiðruð í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Verðlaun Blaðamannafélags Íslands voru veitt í Safnahúsinu við Hverfisgötu í dag. Verðlaun voru veitt í fjórum flokkum en Blaðamannaverðlaun ársins hlaut Sunna Valgerðardóttir fyrir umfjöllun sína um trúarofbeldi. 

Blaðamannaverðlaunin eftir flokkum 

Viðtal ársins: Lillý Valgerður Pétursdóttir 

Umfjöllun ársins: Þorsteinn J. Vilhjálmsson 

Rannsóknarblaðamennska ársins: Helgi Seljan 

Blaðamannaverðlaun ársins: Sunna Valgerðardóttir 

Umsagnir dómnefndar 

Dómnefnd gaf umsagnir um hver verðlaun

Viðtal ársins 2022: Lillý Valgerður Pétursdóttir, fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar:

„Fyrir viðtal við Arnar Þór Ómarsson og Petru Bergrúnu Axelsdóttur, íbúa á Þórshöfn á Langanesi, um aðdraganda andláts Berglindar Bjargar Arnardóttur, tveggja ára dóttur þeirra, úr Covid-19. Frásögn Arnars og Petru af missinum er átakanleg, en lýsir að auki brotalömum í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Blaðamaðurinn nálgast erfitt viðfangsefni af fágun og sýnir viðmælendum virðingu.“ 

Umfjöllun ársins 2022: Þorsteinn J. Vilhjálmsson Rás 1.

„Fyrir útvarpsþáttaröð um kennarann og útvarpsmanninn Skeggja Ásbjarnarson og ofbeldi hans gegn börnum í Laugarnesskóla. Þættirnir voru meðal annars byggðir á áhrifamiklum viðtölum við brotaþola kennarans en einnig við aðra sem báru honum vel söguna. Í sex útvarpsþáttum tókst Þorsteini J. að draga upp ljóslifandi mynd af Skeggja, virðingarstöðu hans í samfélaginu og kynferðisbrotum gegn fjölmörgum drengjum, sem og andlegt ofbeldi gagnvart stúlkum í skólanum.“  

Rannsóknarblaðamennska ársins 2022: Helgi Seljan, Stundinni.

„Fyrir fréttaskýringar um Alexander Moshensky, kjörræðismann Íslands í Belarús (Hvíta-Rússlandi), og náin tengsl hans við Alexander Lukashenko, einræðisherra landsins. Rannsókn Helga leiddi meðal annars í ljós að íslensk stjórnvöld áttu mikil samskipti við fulltrúa Evrópuríkja eftir að Moshensky leitaði liðsinnis þeirra vegna boðaðra refsiaðgerða gegn honum en Moshensky er umfangsmikill kaupandi íslenskra sjávarafurða. Í kjölfar fréttaskýringanna var mál Moshenskys tekið upp í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og utanríkisráðherra kallaður fyrir nefndina.“ 

Blaðamannaverðlaun ársins 2022Sunna Valgerðardóttir, RÚV/ fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar: 

„Fyrir fréttaskýringar á miðlum Sýnar og RÚV. Í Kompási varpaði Sunna nýju ljósi á trúarofbeldi innan sértrúarsöfnuða sem og ýmissa hópa sem fást við andleg málefni, og afleiðingar þess. Þá gaf þáttur hennar um ópíóíðafíkn raunsanna mynd af heimi morfínfíknar. Seinni hluta árs hafði Sunna umsjón með uppbyggingu nýs fréttaskýringaþáttar, Þetta helst, á Rás 1 þar sem efnistök eru fjölþætt og oft nýstárleg.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka