Hætta á greiðsluþroti að óbreyttu

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lýsir miklum áhyggjum af fjárhagsstöðu borgarinnar. Hann segir það bagalegt að ekki hafi náðst að uppfylla markmið Reykjavíkurborgar hvað varðar skuldabréfaútgáfu hennar.

„Í ársbyrjun var samþykkt útgáfuáætlun skuldabréfa fyrir fyrri hluta ársins og í henni er gert ráð fyrir að borgarstjórn taki lán fyrir allt að 21 milljarð króna,“ segir Kjartan í samtali við Morgunblaðið. „Borgin hefur að svo stöddu bara náð í þrjá og hálfan milljarð af þessum 21.“

Sú upphæð nemur aðeins 16,7% af þeirri upphæð sem gert var ráð fyrir en rúmur helmingur er liðinn af tímabilinu.

Borgarstjóri gæfi litlar upplýsingar

„Sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvernig borgin sé að fjármagna sig og á hvaða vöxtum, fyrst ekki gengur betur með skuldabréfaútgáfuna en þessar tölur sýna,“ segir Kjartan sem óskaði svara frá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í vikunni. Hann segir að borgarstjóri hafi þá veitt litlar upplýsingar um málið og ekki svarað ítrekuðum spurningum sem beint var að honum. „Þetta er stórmál, hvernig borgin fjármagnar sig,“ segir Kjartan. „Þess vegna væri mikilvægt að fara yfir þessi mál í borgarstjórn.“

Borgarstjóri hafi þá bent á að hægt væri að ræða málin í borgarráði eða við framlagningu ársreiknings Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022, sem fer fram í maí.

„Ég svaraði því til að mikilvægt væri að borgarstjórn fengi slíkar upplýsingar sem fyrst og helst jafnóðum, enda fer hún með æðsta vald í málefnum sveitarfélagsins og ber endanlega ábyrgð á fjárreiðum þess.“

Reykjavík dragi á yfirdráttarlán

Kjartan segir að líklegt megi teljast að Reykjavíkurborg sé farin að draga á yfirdráttarlán sín og að þá vakni sú spurning á hvaða vöxtum umrædd lán séu. Hann telur að miðað við aðstæður á bankamarkaði megi gera ráð fyrir að þeir vextir séu í kringum 10% ef gert er ráð fyrir að lánið sé óverðtryggt.

Hann telur mikla hækkun stýrivaxta að undanförnu hljóta að leiða til þess að öll ábyrg fyrirtæki og sveitarfélög endurskoði rekstur sinn og takmarki nýjar lántökur eins og kostur er.

Hann segir að fyrirhugað skuldabréfaútboð fyrir marsmánuð hafi verið fellt niður. „Líklega má rekja þá ákvörðun til áhugaleysis fjárfesta og ört versnandi kjara borgarinnar í skuldabréfaútboðunum í janúar og febrúar.“

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í gær. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert