Sameina flugherina vegna kjarnorkuhers Rússa

„Það verður til meiri samruni fjögurra norrænna ríkja í öryggis- og varnarmálum en nokkurn hefur órað fyrir. Og fyrsta skrefið hefur nú þegar verið stigið. 16. mars rituðu þeir undir, yfirmenn flugherja þessara fjögurra landa að þeir ætluðu að sameina flugherina, flugorrustusveitirnar. Og það eru 250 orrustuvélar. Og það fylgir yfirlýsingunni að með því að mynda þennan 250 orrustuflugvéla her að þá verði Norðurlöndin sameiginlega jafnfætis stórveldum í Evrópu þegar litið er til þessa þáttar í öryggis- og varnarmálum. Og við erum þarna utan við, við höfum ekkert þarna fram að færa nema land og aðstöðu sem er hluti af því væntanlega að þetta gangi upp.“

Þessum orðum fer Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra um þá stöðu sem er að teiknast upp í Skandinavíu nú þegar Finnar eru gengnir í NATO og Svíar gera tilraun til þess að sannfæra Tyrki um að greiða leið þeirra inn í bandalagið.

Gígantískar breytingar

Björn er gestur Dagmála þar sem rætt er um öryggis- og varnarmál í ljósi þeirra miklu breytinga sem innrás Rússa í Úkraínu dregur fram í alþjóðamálum. Fullyrðir Björn að „gígantískar“ breytingar séu að eiga sér stað vegna yfirgangs rússneska björnsins.

„Þunginn er mestur á norðurslóðir. Þunginn, nú þegar Finnar og Svíar koma inn í NATO, að þá opnast nýjast víddir til austurs frá Noregi [] með þessu verður miklu breiðari og dýpri hlið á NATO gagnvart Rússlandi. Og það er þar, þessir flugvellir og þetta svæði sem þeir ætla að leggja höfuðáherslu á með þessum mikla flugsveitaflota. Það eru nú þegar byrjaðar æfingar fyrir nokkru og Bandaríkjamenn sendu nýlega njósnavél í fyrsta sinn í sögunni norður eftir landamærum Finnlands upp undir Kólaskaga sem gat séð allt sem gerðist handan landamæranna í Rússlandi og þeir hafa sett B-52 sprengjuvélar inn á Finnskaflóa [...]“ segir Björn.

Hergagnaflutningar færist norður fyrir land

Hann bendir á að margt bendi til þess að liðs- og hergagnaflutningar NATO-ríkjanna muni í auknum mæli færast norður fyrir Ísland. Til greina komi að móttökuhöfn í tengslum við þessa flutninga verði í Narvik í Noregi og að þaðan verði hann fluttur til Svíþjóðar og Finnlands og suður til Eystrasaltsríkjanna.

„Það sem er að gerast er viðurkenning á því sem augljóst er að þegar landher Rússa verður að engu [...] þá eykst áherslan á kjarnorkuvopnin og þau eru á Kólaskaganum og í norðri og þar eru kjarnorkukafbátarnir og brjóstvörn þeirra teygir sig alveg hingað niður á Norð-Austurland. Og það er verið að búa sig undir það á sjó og í lofti, að hafa þann herafla sem þarf til að Rússum detti ekki í hug að láta nokkuð á sér kræla á þessum slóðum. Því einn af lærdómum Úkraínustríðsins er að ef þú ert ekki viðbúinn, ef þú hefur ekki fælingarmátt þá kemur ofríkisríkið og leggur hramm sinn yfir þig á þremur dögum eins og þeir ætluðu að gera í Úkraínu,“ segir Björn.

Viðtalið við Björn má sjá og heyra hér:

Viðtal við Arnór Sigurjónsson, fyrrum hermálafulltrúa Íslands hjá NATO, má sjá og heyra hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert