Stjórnkerfið skortir burði í öryggismálum

„Þetta er kannski of stórt verkefni fyrir svona litla þjóð. Við ráðum ekki við að skapa fjölmiðlum viðunandi lífskjör. Við ráðum ekki við netöryggi, við erum á lægsta stigi þar og við erum núna að tala um að háskólarnir standist ekki kröfur. Hefur eitthvað gerst hér í okkar landi sem veldur því að við förum frekar niður heldur en upp þegar litið er til úrlausnarefna í stjórnkerfinu?“

Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrum dóms- og kirkjumálaráðherra í viðtali í Dagmálum þegar talið berst að því hvernig íslensk stjórnvöld halda á öryggis- og varnarmálum ríkisins. Hann er mjög gagnrýninn á stöðuna og segist taka undir þá skoðun Arnórs Sigurjónssonar, fyrrum hermálafulltrúa Íslands hjá NATO um að togstreita sé ríkjandi innan stjórnkerfisins um það á hvers forræði þessi málaflokkur skuli vera.

Hver fer með ákvarðanavaldið?

Mikilvægt sé að greiða úr þessum málum og tryggja að ákvarðanataka sé skýr og fyrirsjáanleg.

„Köllum við það varnarmálaráðuneyti eða köllum við það sameiginlega stjórn dómsmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis. Þetta er líka ákveðin togstreita innan stjórnarráðsins. Við skulum gera okkur grein fyrir því. Og þegar Arnór nefnir að það þurfi varnarmálaráðuneyti þá áttar hann sig á því að utanríkisráðuneytið gegnir jú ekki hlutverki varnarmálaráðuneytis þótt það sé með varnarmálaskrifstofu. Hann þekkir það manna best. Og það er greinilegt þegar maður veltir því fyrir sér að þá er það líka úrlausnarefni þegar menn fara að skoða þetta. En fyrsta skrefið er auðvitað að vilja skoða það. Að vilja velta því fyrir sér. Ef menn vilja ekki skoða það af því að þeir séu hræddir við að það sé verið að segja að þeir séu að stofna íslenskan her þá er það algjör misskilningur. Menn verða að skoða þetta út frá þeim hugmyndum um skipan mála innan okkar stjórnkerfis þannig að ákvarðanir séu teknar af réttum aðilum, lögbærum aðilum þegar á þarf að halda.“

Tvö ráðuneyti um málaflokkinn

Bendir Björn á að þær stofnanir sem þurfi að bregðast við, verði landið fyrir árás séu Landhelgisgæslan og sérsveit Ríkislögreglustjóra. Öryggis- og varnarmál séu formlega á hendi utanríkisráðuneytisins en hins vegar séu fyrrnefndar stofnanir undir hatti dómsmálaráðuneytisins.

„Ef við getum ekki stígið það skref að stofna varnarmálaráðuneyti sem er greinilega of stórt, þá verðum við þá að finna þá lausn innan þess kerfis sem við höfum sem dugar til þess að þetta sé í lagi. Ég tel að þetta sé ekki í lagi. Ég tel að þetta sé eitt af þessum viðfangsefnum í okkar samfélagi sem er þess eðlis að það virðist sem stjórnkerfið ráði ekki við það og stjórnmálamennirnir ráða ekki við að horfa á umhverfið og breyta reglum og lögum í landinu til þess að það sé tekist á við það á skynsamlegan hátt,“ segir Björn.

Viðtalið við Björn Bjarnason má sjá og heyra í heild sinni hér.

Viðtal við Arnór Sigurjónsson, fyrrum skrifstofustjóra í utanríkisráðuneytinu og hermálafulltrúa hjá NATO má sjá og heyra hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert