Uppsagnir óhjákvæmilegar í Árborg

Íbúafundur um fjármál Árborgar var haldinn í dag á Hótel …
Íbúafundur um fjármál Árborgar var haldinn í dag á Hótel Selfoss. mynd/Sigmundur Sigurgeirsson

Sveitarfélagið Árborg kemst ekki hjá því að segja upp starfsfólki að sögn Fjólu Steindóru Kristinsdóttur bæjarstjóra Árborgar.

Þetta er meðal þess sem kom fram á íbúafundi sem fór fram á Hótel Selfoss í dag. Fundurinn var opinn en þar var rætt um fjármálastöðu sveitarfélagsins og aðgerðir til að bæta skuldavanda þess.

„Ég get ekki sagt hvort og hverjir það verða en í svona aðstæðum er það óhjákvæmilegt. Það verða einhverjar uppsagnir," svaraði Fjóla við spurningu fundarmanns um uppsagnir.

Ráðningarbann í gildi

Fjóla sagði ráðningarbann vera í gildi innan sveitarfélagsins. Láti einhver af störfum sé það því tekið til skoðunar hvort hagræða megi á einhvern hátt svo að ekki þurfi að ráða aftur í starfið. „Við erum að reyna að fækka stöðugildum á sem minnst sársaukafullan hátt,“ sagði Fjóla. 

Hún tekur þó fram að ekki sé komist hjá því að endurráða í sum störf og tekur þar sem dæmi störf þar sem umönnun barna eigi í hlut. „Sumstaðar er það bara þannig að það verður að koma maður í manns stað.“

Spurð um launalækkanir bæjarfulltrúa, sagði Fjóla að laun bæjarfulltrúa hafi nú þegar lækkað um 5% frá og með 1. mars.

Sumar aðgerðir leiðinlegar og sársaukafullar

Bragi Bjarnason formaður bæjarráðs sagði stöðuna erfiða en viðráðanlega. Hann sagði sveitarfélagið þurfa að hámarka þær tekjur sem það hafi möguleika á, ásamt því horfa til sölu eigna sem skipta ekki máli við daglegan rekstur sveitarfélagsins.

Hann segir þó að áfram verði fjárfest í nauðsynlegum verkefnum, ásamt því að ljúka þeim framkvæmdum sem hafnar eru t.d. á fráveitum og uppbyggingu grunnskóla, en að uppbyggingu félagsmiðstöðvar verði frestað.  „Við verðum að velja vel, forgangsraða og halda áfram uppbyggingu innviða,“. 

Bragi sagði þjónustuskerðingar því miður verða að veruleika og að til að mynda hefði verið tekin ákvörðun um að bjóða upp á minni sumarvinnu fyrir unglinga. „Þetta er leiðinlegt.  Sumar aðgerðir verða leiðinlegar og sársaukafullar en þannig er staðan bara“ sagði Bragi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert