Ráðamenn leita til Kára vegna riðu

Kári Stefánsson mun funda með ráðamönnum á mánudagsmorgun.
Kári Stefánsson mun funda með ráðamönnum á mánudagsmorgun.

Íslensk erfðagreining skoðar nú að setja upp sérstaka rannsóknarstofu til að greina sýni úr íslensku sauðfé með þeim tilgangi að leita að hinni verndandi arfgerð gegn riðu. 

RÚV greinir frá þessu. 

Eins og áður hefur verið greint frá hefur riðuveiki komið upp á tveimur bæjum í Húnaþingi vestra á rúmlega tveimur vikum. Vegna þessa þarf að skera niður hátt upp í 1.400 fjár á bænum tveimur. Stjórnvöld höfðu samband við Íslenska erfðagreiningu í kjölfarið.

Borist mörg símtöl

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir í samtali við RÚV að honum hafi borist mörg símtöl í dag frá þingmönnum og ráðherrum sem spyrja hvort möguleiki væri að Íslensk erfðagreining greini úr 200 þúsund sýnum úr sauðfé.

Fyrir rúmu ári síðan urðu straumhvörf í baráttunni gegn riðuveiki en þá var hin klassíska verndandi arfgerð gegn sjúkdómnum fundin í kind hér landi. Út frá því mætti byggja upp riðufrían stofn.

Sýni úr hrútum hafa hingað til verið send til Þýskalands til að athuga hverjir bera genið. 

Mögulegur hamagangur að óþörfu

Kári telur að yfirburða þekking fyrirtækisins á sviði erfðarannsókna muni koma til með nýtast vel í baráttunni gegn riðu. 

„Ég reikna með að við setjumst niður á mánudagsmorgun niðri í Vatnsmýri og ræðum þann möguleika að koma að því að setja upp rannsóknarstofu,“ segir Kári sem bætir við að mögulega séu stjórnmálamenn að búa til hamagang að óþörfu. Hann leggur að auki til að stjórnvöld setji á laggirnar farsóttastofnun svo hægt sé að bregðast við þegar þær koma upp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert