Kvarta yfir mismunun í sköttum

Von er á fjölda skemmtiferðaskipa í sumar.
Von er á fjölda skemmtiferðaskipa í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu (FHG) vilja að farþegagjöld skemmtiferðaskipa verði samræmd þannig að gjaldtakan nemi ígildi virðisaukaskatts sem hótel á landi greiða.

Þetta kemur fram í umsögn FHG um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem er til meðferðar á Alþingi.

Í umsögninni segir að vangaveltur hafi heyrst um að skemmtiferðaskipin verði látin greiða sem nemur ígildi gistináttaskatts af hverri gistinótt við Ísland.

„Slík útfærsla mundi ganga alltof skammt og setja rekstraraðila gistiskipa áfram í öndvegi hvað varðar samkeppni við gistingu í landi. Skemmtiferðaskip greiða enga skatta hér á landi. Sú staðreynd hefur leitt til þess að færst hefur í vöxt að boðið sé upp á gistingu í slíkum skipum sem sigla í kringum landið, gerð út frá öðrum ríkjum, oftast skráð í aflandslögsögum. Framboð gistingar í þessum skipum er stundum verulegt miðað við þá gistingu sem er í boði í viðkomandi bæjarfélagi þar sem lagst er að bryggju,“ segir í umsögninni.

Þá segir FHG að fyrir utan að skipin greiði engan gistináttaskatt fyrir farþega sína og starfsmenn skili þau engum sköttum og gjöldum í ríkissjóð Íslands. Þá greiði skipin sjálf heldur engan virðisaukaskatt af þeim vistum sem keyptar eru í landi og seldar um borð þegar lagt er af stað aftur og ekki aðra skatta eins og áfengisgjald.

„Viðskiptamódel slíkra útgerða gengur út á að farþegar létti á buddunni á skipi, ekki í landi,“ segir í umsögninni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert