Þegar farin að undirbúa ríkisstjórnarstarfið

Kristrún Frostadóttir sagði að saga verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar væri samof­in sögu vel­ferðar­kerf­is­ins …
Kristrún Frostadóttir sagði að saga verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar væri samof­in sögu vel­ferðar­kerf­is­ins á Íslandi og sögu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Ljósmynd/Aðsend

„Kæru félagar, Samfylkingin hefur einsett sér núna að rífa sig í gang og komast í ríkisstjórn. Við ætlum að endurreisa velferðarkerfið á Íslandi, fyrir fólkið sem hér býr. Við erum þegar byrjuð að undirbúa störf okkar í næstu ríkisstjórn.“

Þetta var meðal þess sem kom fram í ávarpi Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, í tilefni verkalýðsdagsins hjá Samfylkingunni í Reykjavík í dag.  

Sem dæmi tók hún að flokkurinn hafi haldið fjölda opinna funda um land allt um heilbrigðismál.

„Næstu málaflokkar á dagskrá eru atvinna og samgöngur, frá og með næsta hausti. Og svo förum við í húsnæðis- og kjaramálin og þá verður farið að styttast í kosningar,“ sagði Kristrún.

„Þetta eru mál sem sameina þjóðina og baráttumál sem við treystum okkur til að skila í næstu ríkisstjórn með sómasamlegum hætti. Þannig að fólkið í landinu fái aftur trú á stjórnmál og trú á samtakamátt almennings og gildi þess að búa í samfélagi.“

Fæti verið kippt undan stöðugleika

Kristrún sagði að saga verkalýðshreyfingarinnar væri samofin sögu velferðarkerfisins á Íslandi og sögu Samfylkingarinnar.

„Verkalýðshreyfingin, líkt og Samfylkingin, skilur að velferðarkerfið er nauðsynlegur hluti af kjörum fólks. Efnahagslegur og félagslegur stöðugleiki þarf þrjá fætur til að standa á: ríki, verkalýðshreyfingu og atvinnurekendur. Sameiginleg ábyrgð, samtal og samvinna þarna á milli er órjúfanlegur hluti af uppbyggingu velferðarsamfélags,“ sagði Kristrún.

„Undanfarin ár hefur hins vegar einum fæti verið kippt undan stöðugleikanum, hlutverki ríkisins. Ráðherrar segja að stjórnvöldum komi kjarabarátta ekki við. Að staðan á vinnumarkaði tengist bara samskiptum tveggja aðila, ekki þriggja.“

Þannig sagði Kristrún að ríkisstjórn síðasta áratugar hafi alið á vantrausti á velferðarkerfinu og rofið þannig sambandið milli réttinda og skyldna.

„Þetta er að mínu mati stærsta vandamál okkar tíma; pólitísk forysta sem rýfur samstöðuna.“

Kristrún Frostadóttir við ræðuhöldin í dag.
Kristrún Frostadóttir við ræðuhöldin í dag. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka