„Langaði helst að aflífa einn þeirra á staðnum“

Einn hestanna sem Steinunn myndaði.
Einn hestanna sem Steinunn myndaði.

Matvælastofnun (MAST) hefur borist erindi vegna meintrar slælegrar meðferðar á hrossum í Arnarfirði.

Ábendingin kom inn á borð stofnunarinnar í gær og að sögn forstjóra er málið í ferli. Sendur verður skoðunarmaður frá héraðsdýralækni sem kannar málið nánar. Áður hafa borist ábendingar um slæmt ástand hestanna.  

Hrönn Jörundsdóttir, forstjóri MAST, segir að ábendingin verði tekin alvarlega og eftir að eftirlitsmaður verði sendur á svæðið verði gerð skýrsla um aðbúnað dýranna.

Þegar hefur verið kvartað undan aðbúnaði hrossanna, en nú síðast í desember skilaði MAST skýrslu þar sem niðurstaðan var aftur á móti að ekki væri ástæða til að gera athugasemdir við aðbúnað dýranna.

Fór 800 kílómetra

Steinunn Árnadóttir, íbúi í Borgarnesi, er sú sem sendi ábendinguna í gær til MAST. Hún segist hafa gert sér sérstaka ferð um 800 kílómetra leið eftir að hún hafi fengið ábendingu um ástand hestanna. Að öðru leyti hafi hún engin tengsl við svæðið. 

„Ég var beðin um að fara í verkið af öðrum sem hafa bent á aðbúnað hestanna og í skýrslunni frá því í desember segir að ekkert sé að,“ segir Steinunn. Hefur hún einu sinni áður gert athugasemd við aðbúnað hrossa í Borgarfirði.  

Segir Steinunn einn hestanna vart geta gengið í myndbandi sem …
Segir Steinunn einn hestanna vart geta gengið í myndbandi sem hún tók. Ljósmynd/Steinunn Árnadóttir

„Ég er hestamanneskja og ég sá strax að það var eitthvað að hestunum (í Arnarfirði). Auðvitað er það dýralæknis að meta ástand hestanna en það er augljóslega eitthvað að og þeim líður mjög illa. Mig langaði helst að aflífa einn þeirra á staðnum. Hann var svo verkjaður. Ég varð mjög reið,“ segir Steinunn. Í framhaldinu hringdi hún á lögreglu og í dýralækni til að láta vita af því sem fyrir augu bar.      

Fjöldi ábendinga notað til grundvallar

Hrönn hjá MAST segir að fjöldi ábendinga um tiltekinn stað geti haft áhrif á úrvinnslu MAST í slíkum málum.  

„Þegar ábendingar koma inn um sama stað þá safnast það fyrir í gagnagrunni. Er það notað til grundvallar um það hvort það þyki ástæða til að bregðast harðar við, hraðar eða öðruvísi,“ segir Hrönn.    

Hún segir að m.a. hafi landfræðileg staða áhrif á það hve skjótt hægt er að koma eftirlitsfólki á staðinn. „Þetta er sent viðkomandi héraðsdýralækni sem sendir eftirlitsmann á staðinn,“ segir Hrönn en hafði ekki frekari upplýsingar um það hvar málið var statt í ferlinu. 

Hrönn Jörundsdóttir.
Hrönn Jörundsdóttir. Ljósmynd/Stjórnarráðið
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert