Skuldabréfaútboð borgarinnar í dag

Skuldabréfaútboð fer fram í dag.
Skuldabréfaútboð fer fram í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Skuldabréfaútboð Reykjavíkurborgar fer fram í dag. Hefur borgin heimild til 21 milljarðs lántöku í heild á árinu og fara vaxtakjör eftir því hvernig markaðurinn tekur í útboðið.  Heildarstærð bréfa fyrir þetta útboð nemur alls 10.360 m.kr. að nafnvirði 

Líkt og fram hefur komið hafa skuldabréf borgarinnar borið 3,5% vexti ef miðað er við viðskiptavakt bréfanna. Um er að ræða verðtryggðan grænan skuldabréfaflokk sem ber fasta verðtryggða vexti. Niðurstöður útboðsins verða birtar opinberlega eigi síðar en á morgun. 

Mun koma í ljós í útboðinu hvort þau kjör verði á bréfunum eða hvort þau verði önnur. Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til þess að taka hvaða tilboði sem sem er að hluta eða í heild eða hafna öllum. 

Kann afstaða fjárfesta að vera skýrari en í fyrri útboðum þar sem nú liggur fyrir niðurstaða ársreiknings borgarinnar. Hallarekstur var 15,6 milljarðar á síðasta ári og var það um 13 milljörðum króna meira en áætlanir sögðu til um. Tveimur fyrri skuldabréfaútboðum Reykjavíkurborgar á árinu hefur verið frestað. 

Markmið borgarinnar fyrir árið snýr að því að ná í 21 milljarð með lántöku en þegar hefur verið gengið á lánalínur upp á um sjö milljarða króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert