Metur sig ekki vanhæfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Pírati, situr í undirnefnd sem fjallar …
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Pírati, situr í undirnefnd sem fjallar um ríkisborgararétt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, segir að þrátt fyrir að hún hafi verið með málefni fyrrum skjólstæðinga til umfjöllunar þá hafi hún ekki metið það til vanhæfis við umfjöllun um veitingu ríkisborgararéttar í undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar.

Arndís var lögmaður þriggja einstaklinga sem fengið hafa ríkisborgararétt eftir umfjöllun í undirnefndinni eins og fram kom í Morgunblaðinu í dag.

Fullyrðir hún að tengsl sín við viðkomandi skjólstæðinga hafi ávallt verið uppi á borðum og að hún hafi ekki metið það sem svo að hún hefði þurft að stíga til hliðar þegar málefni fyrrum skjólstæðinga sinna voru rædd.

Engin önnur tengsl 

„Ég starfaði í þessum málaflokki í 15 ár og skjólstæðingar mínir skiptu hundruðum ef ekki þúsundum,“ segir Arndís.

Hún segist ekki hafa nein önnur tengsl við þessa einstaklinga. „Það er ekki þannig að maður sé eitthvað tengdur öllu fólki sem maður hefur unnið fyrir í gegnum tíðina,“ segir Arndís.

En hefðir þú ekki átt að stíga til hliðar þegar málefni þessara einstaklinga voru til umfjöllunar?

„Nefndin vinnur mjög þétt saman og þau eru rædd í þaula áður en við tökum sameiginlega afstöðu. Ég tel ekki ástæðu til að stíga út úr herberginu í hvert skipti sem sem einstakling ber á góma sem maður kannast við nafnið á,“ segir Arndís og bætir við. „Þá hefði ég þurft að stíga frá í helmingi tilvika.“

Þá segir hún að hún hafi ávallt sagt frá tengslum sínum við einstaklinga við aðra nefndarmeðlimi. Bendir hún á að fjölmargir einstaklingar sem hún hafi unnið fyrir hafi verið til umfjöllunar en ekki fengið ríkisborgararétt.

Treyst fyrir sæti í nefndinni

Hún segir að þingmanna sé ávallt að meta hæfi sitt hverju sinni. „Það er okkar þingmanna að meta hæfið hverju sinni og það á við um alla nefndarmenn. Og ef það kemur eitthvað nafn upp sem nefndarmenn voru að fjalla um þá er það alltaf uppi á borðum í nefndinni," segir Arndís.

Hún segir vissulega snúið að meta vanhæfi hverju sinni. „Við gerum grein fyrir okkar hagsmunum í hagsmunaskrá. Þegar ég tók sæti í nefndinni þá var það uppi á borðum að ég hef verið að vinna með fyrst og fremst flóttafólki í 15 ár. Það var meðal annars þess vegna sem mér var treyst fyrir sæti í nefndinni. Það var líka uppi á borðum þegar allsherjar- og menntamálanefnd kaus mig í nefndina,“ segir Arndís.

Gæti ekki svarað um hvaða fólk er að ræða

Hún segir að í ljósi þess hve marga hún hefur unnið fyrir sem sóst hafa eftir ríkisborgararétti þá ætti fremur að velta því upp hvort hún eigi að sitja í undirnefndinni, fremur en að velta því upp hvort hún hefði átt að stíga til hliðar þegar tiltekin mál voru til umfjöllunar.

„En ég er ósammála því að manneskja með gríðarlega mikla reynslu af málaflokknum eigi ekki að vera í nefndinni. Ég er ekki að fjalla um mál fólks sem er mér nákomið. Ég gæti ekki svarað því í svipinn um hvaða fólk er verið að ræða,“ segir Arndís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert