Ný lyfjakort eiga að koma í veg fyrir misnotkun

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Hallur Már

Heilbrigðisráðuneytið boðar setningu reglugerðar um miðlæg lyfjakort, en með reglugerðinni er m.a. ætlunin að auka öryggi sjúklinga og gegnsæi í þeim lyfjameðferðum sem þeir sæta sem og að veita heildaryfirsýn yfir lyfjasögu einstaklings. Með reglugerðinni er og ætlunin að tryggja rekjanleika allra færslna og uppflettinga í kerfinu og verður einstaklingum jafnframt heimilað að fá upplýsingar um hverjir hafa flett upp lyfjakorti þeirra sem og gert á því breytingar.

Nýverið voru fluttar fréttir af því að starfsmaður lyfjaverslunar væri grunaður um að hafa flett upp lyfjakortum þjóðþekktra einstaklinga og komið upplýsingum um lyfjaávísanir þeim til handa til þriðja aðila.

Frá reglugerðaráformunum er greint í samráðsgátt stjórnvalda og er þar gefinn kostur á að að senda inn umsögn um reglugerðardrögin.

Það er embætti landlæknis sem ber ábyrgð á að starfrækja miðlægan gagnagrunn lyfjakorta og segir á vef Samráðsgáttarinnar að markmiðið með þessum breytingum sé að veita heildaryfirsýn yfir lyfjasögu einstaklings, yfirlit yfir virkar lyfjaávísanir, lyfjaskírteini og flokkun slíkra upplýsinga. Í lyfjakorti einstaklings koma fram allar upplýsingar um lyfjasögu viðkomandi og með nýjum reglum verði heilbrigðisstarfsmönnum sem koma að lyfjameðferð einstaklings kleift að veita bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu hverju sinni á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga, að því er segir í tilkynningu á ráðuneytisins í gáttinni.

Segir þar að innleiðing gagnagrunnsins sé hafin en nokkurn tíma geti tekið að koma honum upp hjá þeim sem ávísa lyfjum og afgreiða þau. Því verði áfram heimilað að ávísa lyfjum með gamla laginu til næstu áramóta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert