Lúsmýið er mætt

Lúsmýið er á vappi fram í ágústlok og er mest …
Lúsmýið er á vappi fram í ágústlok og er mest áberandi þar sem er mikið skjól. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gísli Már Gíslason, prófessor emeritus í vatnalíffræði við Háskóla Íslands, segir lúsmýið vera komið á ról og tímabilið hafið. 

„Það passar alveg við tímann að fólk hafi orðið vart við þær, en þessi tegund af flugunum sem bítur fólk fer að klekjast út um miðjan júní og eru þær á vappi fram í ágústlok."

Góða veðrið hjálpar lúsmýinu

Gísli segir tegundina sem bítur fólk og spendýr, Culicoides recondies, vera um allt land nema á Vestfjörðum, Norðausturlandi og Austfjörðum.

„Það er núna mikið logn og hlýindi á landinu, sem þarf til að flugurnar geti flogið, en ég hef heyrt að þær hafi verið að láta vita af sér í Grímsnesinu og á Blönduósi."

Hér má sjá bit eftir lúsmý.
Hér má sjá bit eftir lúsmý. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gömlu góðu forvarnirnar

Aðspurður hvað landsmenn geti gert til að verjast lúsmýinu segir Gísli að gömlu góðu forvarnirnar virki best. „Ef fólk er á á svæðum þar sem er mikið logn þarf bara að passa að loka gluggum og vera með viftuna í gangi til að þær geti ekki flogið."

Hann hvetur til þess að bera á sig sprey sem fælir flugurnar í burtu, en segir að ákveðinn skortur sé í íslenskum apótekum á góðum kremum sem hægt sé að bera á bitin. 

„En það að láta spreya eitri í sumarbústaðina er eins og að kasta peningum á glæ."

Þá segir Gísli að landsmenn þurfi að læra að lifa með lúsmýinu. „Mín reynsla er sú að mann klæjar ekki jafn mikið og fyrst eftir að maður hefur verið bitinn nokkrum sinnum og þessi tegund er ekki jafn slæm og bitmýið sem er við vötn."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert