Vísuðu björgun Tjarnarbíós frá

Birna Hafstein, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Birna Hafstein, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur vísaði í gær frá tillögu Birnu Hafstein varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aukafjárveitingu til að koma í veg fyrir yfirvofandi lokun Tjarnarbíós.

Í borgarstjórn fór þá fram umræða um stöðu sviðslista og sjálfstæðra menningarhópa í Reykjavík, en starfsaðstaða þeirra er af æ skornari skammti og þrengist enn ef Tjarnarbíói verður lokað.

Birna lagði því til að borgarstjórn tæki fyrir og samþykkti tillögu um sjö milljóna króna aukafjárveitingu til að koma í veg fyrir það, en meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Viðreisnar og Pírata hafnaði því að taka tillöguna á dagskrá borgarstjórnar.

Tjarnarbíó síðasta athvarfið

Birna minnir á að áður hafi sjálfstæðir menningarhópar haft í mörg hús að venda í Reykjavík en nú standi Tjarnarbíó eitt eftir og alger óvissa um áframhaldandi rekstur þess. Bíóið sé ekki aðeins þéttsetnasta svið landsins, heldur séu þar frumsýnd flest ný íslensk verk á ári, eða um 55% frumsýndra, íslenskra verka.

„Vandi Tjarnarbíós er ekki nýtilkominn en það þarf að bregðast hratt við,“ segir Birna. „Það er pólitísk ákvörðun að setja fjármagn í listir og menningu og sorglegt að taka ekki ábyrgð á stöðu Tjarnarbíós í því árferði sem við búum við.“

Frekar bækling en bíó

Hún segir að ekki hafi verið hugað að starfsemi Tjarnarbíós og fyrirsjáanleiki starfseminnar  nánast enginn. „Framlag borgarinnar hefur ekki haldist í hendur við efnahagsþróun, launahækkanir, verðbólgu eða aukinn kostnað á aðföngum og gjöldum,“ segir hún telur brýnt að horfast í augu við aðkallandi fjárhagsvanda og móta rekstrarfyrirkomulag Tjarnarbíós til framtíðar.

Birna kveðst átta sig vel á bágri fjárhagsstöðu borgarinnar og því hafi í tillögu sinni falist að borgin félli frá dýrri útgáfu árlegs bæklings um húsnæðisuppbyggingu í borginni og nýtti fjármunina fremur til að styðja við Tjarnarbíó til þess að koma í veg fyrir að sjálfstæðu menningarhóparnir færu á götuna í haust. „Því harma ég mjög niðurstöðu meirihlutans að neita að taka málið á dagskrá,“ sagði Birna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert