Föst á hraðbraut í Danmörku og rænd í Frakklandi

Guðný og Róbert eru nú stödd á Íslandi ásamt börnunum …
Guðný og Róbert eru nú stödd á Íslandi ásamt börnunum sínum, sem höfðu engan tíma fyrir myndatöku. mbl.is/Eyþór Árnason

Guðný Matthíasdóttir og Róbert Halbergsson hafa nú búið með börnum sínum tveimur í húsbíl í tæpt ár. Fyrst á ferðlagi í gegnum Evrópu og til Spánar, þar sem þau hafa dvalið á Costa del Sol í sumar. Þó upphaflega planið hafi verið að finna sér varanlegt húsnæði á Spáni og setjast þar að, þá eru þau ekki alveg á þeim buxunum núna.

„Okkur finnst svo ógeðslega gaman að flakka að við tímum ekki að hætta,“ segir Guðný kímin í samtali við mbl.is.

Fjölskyldan áður en þau lögðu af stað í fyrra.
Fjölskyldan áður en þau lögðu af stað í fyrra.

Þeim finnst einfaldlega of gaman að ferðast um á húsbílnum og stefna á að halda ferðalaginu áfram á næstu vikum. Fyrst ætla þau til Grikklands og Albaníu og fleiri landa á því svæði, áður en þau taka ferju yfir til Tenerife þar sem þau hyggjast dvelja í vetur.

Þau eru nú stödd á Íslandi að sinna ákveðinni viðhaldsvinnu á fjölskyldunni, fara í mikilvægar læknisheimsóknir og fleira sem heppilegast er að gera í heimalandinu.

Þau hafa nú þegar ferðast til átján landa og væru til að heimsækja þau flest aftur, að sumri til, þó vetrarheimsóknirnar hafi verið góð upplifun.

Mýs átu búslóðina

Fjölskyldan, sem samanstendur af þeim Guðnýju og Róberti, Ísabellu Lind 17 ára og Kristófer Val 11 ára, hóf ferðalagið í október á síðasta ári eftir að hafa losað sig við flestar veraldlegar eigur sínar hér landi og fjárfest í hentugum húsbíl.

Hug­mynd­in kom reyndar ekki til af góðu því Guðný á sam­kvæmt lækn­is­ráði að dvelja í heit­ara lofts­lagi vegna þrálátra eftir­kasta af Covid-19. Ævin­týraþráin á þó líka sinn þátt í að þau ákváðu að láta vaða.

Fyrsta stopp var í Danmörku þar sem þau áttu búslóð í geymslu sem þurfti að fara í gegnum, en þau bjuggu þar í nokkur ár áður en þau komu aftur til Íslands í Covid-faraldrinum. Þar blasti hins vegar við þeim ófögur sjón því mýs höfðu gert sig heimakomnar í geymslunni og étið sig í gegnum hálfa búslóðina. Rakaskemmdir voru einnig miklar. Sem bet­ur fer voru þau tryggð, en það tók þau um einn og hálf­an mánuð að fara í gegn­um bú­slóðina og meta skemmd­irn­ar með trygg­inga­fé­lag­inu.

Þvo sér um hárið á bílastæðum

Eftir að hafa gengið frá þeim málum héldu þau ferðinni áfram og heimsóttu löndin átján hvert af öðru þangað til þau komu til Costa del Sol á Spáni. Þar leigði Róbert sér vinnustofu til að hafa aðstöðu til að sinna verkefnum fyrir PúHa-design, fyrirtækið sem hann rekur.

„Þetta er geggjaður staður að vera á, en það er dýrt að búa þar. Svo verður kaldara á veturna þannig við erum að hugsa um að vera á Tene í vetur.“

Þá segir Guðný frekar lélega aðstöðu fyrir húsbíla á Costa del Sol. Einhver tjaldstæði séu í boði en þau séu mjög dýr. „Það væri ódýrara fyrir okkur að vera í Airbnb ef við ætluðum að vera þarna áfram.“

Hún segir aðstöðu fyrir húsbíla töluvert betri á Tenerife og hlýrri vetur heillar þau meira.

Þá er það mjög ofarlega á forgangslista þeirra að hafa betra aðgengi að sturtu, en slík aðstaða á Costa del Sol er ekki upp á marga fiska.

„Það er einn staður á öllu Costa del Sol svæðinu þar sem hægt er að komast í almenningssturtur. Og þar er ein sturta. Við höfum verið að þvo okkur um hárið á bílastæðum þar sem hægt er að tæma klósett og fá ferskvatn,“ segir Guðný. „Það er samt ekki samtengt,“ bætir hún hlæjandi við, svo það sé alveg á hreinu að þau hafi ekki þvegið sér upp úr skólpinu. „Þar höfum við Ísabella náð að þvo okkur um hárið en strákarnir rökuðu bara hárið af. Við mæðgurnar höfum ekki tímt því.“

„Það er rosa lítið pláss fyrir leyndarmál“

Hún segir þau samt hafa haft það mjög gott í sumar, þrátt fyrir aðstöðuleysið. Tíðar hitabylgjur á meginlandinu hafi ekki náð almennilega til þeirra þarna við sjóinn, svo hitinn hafi aldrei verið kæfandi.

Þó þau sjái Tenerife fyrir sér sem dvalarstað í vetur hafa þau ekki tekið ákvörðun um að setjast þar að í varanlegu húsnæði. Það kitlar þau að halda húsbílalífinu áfram um tíma, en væru samt til að hafa afdrep einhvers staðar.

„Við eiginlega ákváðum saman þetta væri lífsstíll sem hentar okkur ágætlega núna.“

Krakkarnir eru jafn spenntir og þau fullorðnu, en Guðný segir það skilyrði fyrir áframhaldandi ferðalagi að allir séu sáttir við þá ákvörðun.

Þau eru mjög náin og samheldin fjölskylda og eru vön að vera mikið saman.

„Það þýðir ekkert að vera með einhverja spéhræðslu eða feimni. Það vita allir allt og það er rosa lítið pláss fyrir leyndarmál,“ segir Guðný hlæjandi.

Íslendingar björguðu þeim af hraðbrautinni 

Þrátt fyrir að heilt yfir hafi flest gengið vel og að húsbílalífið heilli þau, þá hafa þau í tvígang lent í mjög erfiðri lífsreynslu. Guðný viðurkennir að þá hafi runnið á hana tvær grímur og hún hugsað hvort þau væru að gera rétt.

Í fyrra skiptið var það þegar þau sátu föst á hraðbraut í Danmörku í tvo sólarhringa eftir að dekk sprakk á bílnum þeirra. En það voru svo Íslendingar sem komu þeim bjargar á ögurstundu. Fólk sem hafði frétt af hrakförum þeirra og keyrði um langan veg til að sinna björgunaraðgerðinni.

„Það eru dásamlegir Íslendingar úti um allt. Það var fólk sem keyrði 3 til 400 kílómetra til að hjálpa okkur. Ég vildi fá að borga þeim eitthvað en þau tóku það ekki í mál. Þau sögðu að kannski gætum við gert þeim einhvern greiða seinna,“ segir Guðný en þau voru djúpt snortin yfir greiðasemi fólks.

„Á tímabili þá vissum við ekki hvernig við áttum að fara að þessu. Aðra nótt var bíllinn dreginn af því hann var orðinn alveg rafmangslaus og það voru engin viðvörunarljós á honum. Hann var þá mjög hættulegur. Það hefði verið auðvelt að keyra á hann og við um borð.“

Kortin afrituð og reikningar tæmdir

Svo þegar þau voru komin til Frakklands var brotist inn í bílinn þeirra og þau rænd, en þó ekki með hefðbundnum hætti. Enda töldu þau í fyrstu að ekkert hefði verið tekið þegar þau fóru yfir dótið sitt. Allt virtist á sínum stað þó augljóst hefði verið að rótað hefði verið í öllu.

„Kortanúmerunum var stolið. Við vorum með kortin en þegar við ætluðum að nota þau með pin-númerum þá tæmdust reikningarnir. Þannig við stóðum á einhverri franskri bensínstöð alveg peningalaus. Það reddaðist sem betur fer og við fengum góða aðstoð þá.“

Þau hafa nú fengið peninginn til baka frá bankanum, en það tók um tvo til þrjá mánuði að endurheimta allt.

Þetta vesen tafði Guðnýju og Róbert, en börnin höfðu farið heim til Íslands í smá frí og til stóð að þau hittust á Spáni á ákveðnum tíma. Til að ná þangað í tæka tíð urðu þau að bruna í einum rykk á húsbílnum og gátu varla gefið sér tíma til að sofa. Mjög taugatrekkjandi ferðalag, sem hafðist, þó það hefði verið tvísýnt á tímabili.

„Ég var mjög fegin að krakkarnir voru ekki með okkur þá,“ segir Guðný þegar hún rifjar þessar erfiðu stundir upp.

„Svo reddaðist þetta, þetta reddast alltaf. Svo hugsaði maður eftir á að þetta væri góð saga.“

Börnin í góðum samskiptum við vini

Börnin stunduðu fjarnám síðasta vetur og það gekk mjög vel að sögn Guðnýjar. Hún gerir ráð fyrir að þannig verði það áfram.

Þá hafa þau haldið góðu sambandi við vini í gegnum netið og samfélagsmiðla og segir Guðný samskiptin í raun bara svipuð og þau væru í sama landi, enda fari samskipti barna og ungmenna á þessum aldri mikið fram með þessum hætti.

Eiga einstakt samband við börnin

„Strákarnir eru rosa mikið að hittast í tölvunni, þeir eru mikið í fortnite saman og það breytist ekkert. Þeir bara hittast þar og halda sambandi. Það er ekkert mál. Það hafa margir haft áhyggjur af félagslega þættinum, en þetta er að virka fyrir hann. Svo þegar við hittum einhverja sem eru með krakka, skiptir engu máli hvort þeir þekkjast eða ekki, það tekur yfirleitt bara nokkrar mínútur að fara að leika saman. Þannig þetta er ekki vandamál.“

Ísabella er líka í sambandi við vini sína í gegnum netið. Stundum horfa þau meira segja saman á sjónvarpið í sitthvoru landinu með því að horfa á sömu myndina á sama tíma og spjalla saman.

Guðný segir ferðalagið því ekki hafa neikvæð áhrif á börnin félagslega og hvað fjölskylduna varðar þá hafa tengslin jafnvel styrkst enn frekar. „Sambandið okkar er rosa gott og við eigum alveg einstakt samband við börnin okkar.“

Allt hrátt og óklippt á Instagram

Fjölskyldan deilir húsbílalífinu með áhugasömum á Instagram. Þar er enginn glamúr, filter eða ritskoðun, bara lífið eins og það er.

Þau hafa fengið margar fyrirspurnir frá fylgjendum varðandi praktísk atriði í tengslum við húsbílalífið og ferðalög með börn og því augljóst að fleiri eru áhugasamir um að láta ferðadrauma rætast. Þau hafa jafnvel verið einhverjum hvatning til að taka stökkið. Algengasta spurningin snýr að námi barnanna og hvernig því sé háttað.

„Það má alveg spyrja, bara endilega senda á okkur ef það er eitthvað. Kannski getum við ekki svarað því og þá bara segjum við það.“

Guðný tekur þó fram að hún sé enginn áhrifavaldur og það sé ekki markmiðið. Hún fái ekki borgað fyrir neitt sem hún sýnir eða gerir.

„Mér finnst gaman að fá fylgjendur því það er gaman að fá spurningar og geta hjálpað öðrum. Svo hef ég fengið hjálp þegar ég þurft á henni að halda. Það skiptir mig máli,“ útskýrir Guðný. Þeim finnst líka bara gaman að deila ævintýri sínu með fleirum.

Við byrjuðum bara á þessu til að leyfa fólkinu okkar heima að fylgjast með en svo hafa margir bæst í hópinn, en við höldum bara áfram að vera við. Við breytum okkur ekkert, þetta er allt mjög hrátt og óklippt,“ segir Guðný hlæjandi.

Fjölskyldan heldur brátt af landi brott aftur, en fyrst ætla þau að vera með sölutjöld á Ljósanótt og mögulega hátíðinni Í túninu heima í Mosfellsbæ. Þar verða vörur frá PúHa-design til sölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert