Mýs átu búslóðina en stefnir í notaleg jól

Fjölskyldan hefur verið að njóta í jólstemningu síðustu daga.
Fjölskyldan hefur verið að njóta í jólstemningu síðustu daga. Ljósmynd/Aðsend

Fjögurra manna fjölskylda sem stefnir á að ferðast á húsbíl frá Íslandi til Spánar, til að setjast þar, er nú stödd í Svendborg í Danmörku þar sem þau hyggjast halda jól með tveimur elstu dætrunum sem búsettar eru ytra.

Elsta dóttirin býr ásamt fjölskyldu sinni í Svendborg og hafa hjónin, Guðný Matthíasdóttir og Róbert Halbergsson, dvalið ásamt tveimur yngstu börnunum sínum, þeim Ísabellu Lind 16 ára og Kristófer Val 10 ára, í húsbílnum á tjaldstæði í nágrenni bæjarins síðustu vikur.

Ljósmynd/Aðsend

Jólaskreyta eins og hægt er

Húsbíllinn er heimili þeirra eins og er og heimilið hafa þau að sjálfsögðu skreytt fyrir jólin, þó umfang skreytinganna sé kannski ívið minna en oft áður. „Við höfum föndrað, ég og dóttir mín. Það er auðvitað ekki mikið pláss fyrir skraut en við erum komin með eina jólaseríu og gluggalímmiða,“ segir Guðný kímin í samtali við mbl.is.

Fyrr á þessu ári seldi fjölskyldan nánast allar veraldlegar eigur sínar hér á landi og fjárfestu í húsbíl sem þau ætla að keyra til Spánar, finna sér varanlegt húsnæði og setjast þar að. Mikið ævintýri sem öll fjölskyldan er spennt fyrir.

Hugmyndin kom ekki til af góðu því Guðný á samkvæmt læknisráði að dvelja í heitara loftslagi vegna þrálátra eftirkasta af Covid-19. Ævintýraþráin á þó líka sinn þátt í að þau ákváðu að láta vaða.

Ljósmynd/Aðsend

Ófögur sjón blasti við í geymslunni

Þann 19. október síðastliðinn lagði fjölskyldan af stað með Norrænu til Danmerkur, með stuttu stoppi í Færeyjum. Það stóð alltaf til að dvelja um tíma í Danmörku þar sem þau bjuggu um árabil. Þar áttu búslóð í geymslu sem þau ætluðu að fara í gegnum, henda, gefa og selja og flytja svo restina til Spánar.

Það verkefni vatt hins vegar heldur betur upp á sig því það var ófögur sjón sem beið þeirra í geymslunni. Mýs höfðu komist þar inn, nagað hluti og skitið út um allt. Þá hafði raki einnig komist að búslóðinni og margt því alveg ónýtt. Sem betur fer voru þau tryggð, en það tók þau um einn og hálfan mánuð að fara í gegnum búslóðina og meta skemmdirnar með tryggingafélaginu. Þeirri vinnu lauk í byrjun desember.

Kristófer hefur það kósý fyrir svefninn.
Kristófer hefur það kósý fyrir svefninn. Ljósmynd/Aðsend

„Við þurftum að opna hvern einasta kassa og fara í gegnum hvað hefði verið nagað og kaupa okkur plastkassa til að gera þetta „múshelt“. Við ætluðum að vera svona viku til tíu daga að þessu,“ segir Guðný.

Hún spurði einmitt þann sem leigði þeim geymsluna hvort hún væri ekki örugglega rakaþétt og gerðar ráðstafanir varðandi mýs og var fullvissuð um að svo væri.

„Það sem var ekki nagað af músum, það var rakaskemmt,“ segir Guðný, en þau eru nú búin að koma því litla sem var heilt fyrir á betri stað.

Þegar þau höfðu lokið við að fara í gegnum búslóðina ákváðu þau að taka sér smá frí og heimsækja dóttur sína á Norður-Jótlandi og skruppu einnig til Þýskalands að skoða jólamarkaði og hafa það notalegt.

Ísabella í unglingaherberginu.
Ísabella í unglingaherberginu. Ljósmynd/Aðsend

Skólinn gengið vel þátt fyrir netvandræði

Aðspurð hvernig fjölskyldunni hafi gengið að búa svona þröngt segir Guðný það hafa gengið furðu vel og að engir alvarlegir árekstrar hafi komið upp þrátt fyrir mjög náið samneyti fjölskyldunnar meirihluta sólarhringsins.

Börnunum hefur gengið vel að stunda sitt nám frá því að þau lögðu af stað, en Ísabella var að klára fyrstu önnina í framhaldsskóla í fjarnámi frá Framhaldsskólanum á Húsavík. Kristófer er í Ásgarðsskóla – skóla í skýjunum og er nú hálfnaður með fimmta bekk í fjarnámi.

Það eina sem hefur verið að trufla þau er vesen með nettengingu, en þau sjá sem betur fer fyrir endann á því. Þá hefur verið meiri áskorun en þau bjuggust við að vera háð rafmagni og hafa þau því þurft að vera meira inni á tjaldstæðum með fulla þjónustu heldur en þau reiknuðu með. Sem hefur haft aukinn kostnað í för með sér.

Öll eru þau spennt fyrir því að halda áfram.
Öll eru þau spennt fyrir því að halda áfram. Ljósmynd/Aðsend

„Sólarrafhlöðurnar virka auðvitað ekki því það er eiginlega engin sól, þannig við þurfum alltaf að passa okkur að vera í rafmagni. Svo er netvesen. Við ætluðum að kaupa okkur frelsiskort þar sem við værum en til dæmis eins og í Þýskalandi þá bjóða þau ekki upp á það. Við erum að vesenast í því núna. Við þurfum nettengingu út af skóla og vinnu,“ segir Guðný.

Róbert hefur rekið fyrirtækið PúHa design síðastliðin fimm ár, en undir því merki hanna þau og selja ýmiskonar gjafavöru. Þau hafa eitthvað unnið í fjarvinnu og látið prenta fyrir sig á Íslandi það sem hægt er. Þau hafa enga vinnustofu meðan þau eru á ferðinni og því takmörkuð starfsemi hjá fyrirtækinu um þessar mundir.

Á sumardekkjum í snjónum í Danmörku

Guðný segir bílinn hafa reynst þeim vel, þrátt fyrir mikið vetrarveður í Danmörku fyrri hluta desembermánaðar. Kuldinn fór niður í tíu stiga frost og var allt á kafi í snjó. Það var í raun svo kalt einn daginn að bíllinn fór ekki í gang eitt skipti. „Þá var bara alltof kalt og bílinn varð rafmagnslaus þegar við vorum að reyna að starta honum,“ útskýrir Guðný.

En þrátt fyrir kuldann hefur þeim tekist vel að halda á sér hita inni í bílnum.

Ljósmynd/Aðsend

„Við erum með rosalega góðar sængur og svo erum við með gashitara, rafmagnshitablásara og hitateppi. Ég bjóst alveg við að við þyrftum að liggja öll saman ef það væri kalt, en það hefur ekki verið þörf á því.“

Bílinn er þó ekki útbúinn fyrir miklar vetrarhörkur.

„Við erum á sumardekkjum en við stoppuðum bara þegar það var allt á kafi í snjó. Eina skiptið sem við höfum fest okkur var í gær og það var í mold inni á tjaldstæðinu,“ segir Guðný hlæjandi. „Það þurfti að koma traktor og draga okkur upp. Þá fór frostið úr jörðinni og bíllinn sökk niður,“ bætir hún við. Snjórinn er nú farinn og hitatölur komnar yfir frostmark þannig færðin er mjög fín.

Ljósmynd/Aðsend

Hefðbundið heimilislíf í húsbílnum

Í húsbílnum er hjónarúm, eitt rúm fyrir Kristófer og svo er Ísabella með séraðstöðu fyrir ofan stýrishúsið þar sem hún getur dregið fyrir og verið í næði, hálfgert unglingaherbergi.

Fjölskyldulífið er í raun ekki mjög frábrugðið því sem gerist á hefðbundnu heimili. Þau sinna sínum verkefnum á daginn og á kvöldin hafa þau það notalegt saman. Við matseld notast þau mest við airfryer, vinsælustu jólagjöf síðasta árs, og thermomix sem Guðný segir mikið þarfaþing í húsbílalífinu. Svo horfa á þau á sjónvarpið í gegnum Apple-TV. Bara eins og gert er á venjulegu heimili.

Þá eru þau byrjuð að skipuleggja hvernig þau ætla að haga ferðalaginu til Spánar.

„Við erum að byrja að setja saman leiðina sem við ætlum að fara niður eftir og krakkarnir eru svolítið með í því. Hvert langar þeim að fara og hvað langar þau að sjá. Við sjáum fyrir okkur að fara í sikksakki þarna niður eftir. Einn vill sjá Effel-turninn og annar vill skoða Berlín. Við erum ekkert að flýta okkur. Við keyrum bara í rólegheitunum.“

Á kvöldin er spilað eða horft á sjónvarpið.
Á kvöldin er spilað eða horft á sjónvarpið. Ljósmynd/Aðsend

Spennt að halda áfram

Þau stefna á að fara frá Danmörku á milli jóla og nýárs eftir að hafa haldið jól í Svendborg með fjölskyldunni. Áramótin eru enn óráðin og ætla þau bara að sjá hve langt þau verða komin.

„Við ætlum að vera með stelpunum okkar yfir jólin því við eigum tvær stórar stelpur hér. Þetta er í fyrsta skipti síðan 2019 sem við erum með öllum börnunum okkar,“ segir Guðný full tilhlökkunar.

„En þó það verði gaman hjá okkur um jólin að vera saman, þá erum við mjög spennt að halda áfram.“

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert